Sandstrandarvist

L7.1 Sandstrandarvist

Eunis-flokkun: B1.234 Icelandic sand beach perennial communities.

Lýsing

Basalt- og skeljasandsfjörur með strjálum strandgróðri sem samanstendur að mestu af seltuþolnum æðplöntutegundum. Mosar og fléttur finnast vart eða ekki. Þangreki oft mikill sem hefur áburðaráhrif á gróður. Á stöðum þar sem sjávargangur er lítill er gróður að jafnaði beltaskiptur.

Plöntur

Vistgerðin er fátæk af tegundum vegna sjávargangs og seltu, fáar en vel aðlagaðar æðplöntutegundir. Tegundir sem mest kveður að eru fjöruarfi (Honckenya peploides), melgresi (Leymus arenarius), blálilja (Mertensia maritima), hrímblaðka (Atriplex glabriuscula) og fjörukál (Cakile maritima ssp. islandica).

Jarðvegur

Sandjörð, fremur þykk, kolefnisinnihald er mjög lágt en sýrustig mjög hátt, einkum í skeljasands­fjörum.

Fuglar

Nokkurt fuglalíf, sandlóa (Charadrius hiaticula), tjaldur (Heamatopus ostralegus), kría (Sterna paradisaea), æðarfugl (Somateria mollissima).

Líkar vistgerðir

Malarstrandarvist og strandmelhólavist.

Útbreiðsla

Er algeng með sendnum sjávarströndum landsins, útbreiddust með suðurströndinni.

Verndargildi

Lágt.