Malarstrandarvist

L7.2 Malarstrandarvist

Eunis-flokkun: B2.3 Upper shingle beaches with open vegetation.

Lýsing

Lítt grónir malar- og grjótkambar við sjó. Vistgerðin finnst einkum við víkur og voga þar sem sjór hefur kastað upp sandi, möl og grjóti. Vegna sjávargangs er yfirborð mjög óstöðugt og gróður undir miklum áhrifum frá sjó. Yfirborð er mjög grýtt, gróður strjáll eða í smábreiðum, lágvaxinn og mjög fábreyttur. Hann samanstendur aðallega af æðplöntum en mosar og fléttur finnast aðeins í mjög litlum mæli.

Plöntur

Vistgerðin er mjög fátæk af tegundum og einkennist af saltþolnum strandplöntum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru vallarsveifgras (Poa pratensis), fjöruarfi (Honckenya peploides), túnvingull (Festuca rubra ssp. richardsonii) og hrímblaðka (Atriplex glabriuscula). Af mosum finnast helst ­hæruskrúfur (Syntrichia ruralis) og ögurmosi (Ulota phyllantha) en af fléttum fjörudoppa (Amandinea coniops).

Jarðvegur

Klapparjörð og sandjörð eru ríkjandi, jarðvegur er grunnur.

Fuglar

Nokkurt fuglalíf, sandlóa (Charadrius hiaticula), tjaldur (Heamatopus ostralegus), kría (Sterna paradisaea), æðarfugl (Somateria mollissima).

Líkar vistgerðir

Sandstrandarvist.

Útbreiðsla

Allvíða með sjávarströndum, algengust með norðurströnd landsins, síst við suðurströndina þar sem sandfjörur ríkja.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.