Gróðureldar vorið 2015

Hinn 1. maí kom upp eldur á mýrlendissvæði norðaustur af Stokkseyri á milli jarðanna Efra-Sels og Hoftúns. Eldurinn breiddist hratt út í norðaustan strekkingi og tók það slökkviliðið nokkrar klukkustundir að ráða niðurlögum hans. Að austan og sunnan brann eldurinn að skurði Flóaáveitunnar og Selvatni sem hefti útbreiðslu hans en að vestan þurfti að beita sinuklöppum til að kæfa eldinn. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands skoðuðu áhrif brunans nokkrum dögum seinna og kortlögðu útmörk. Svæðið sem brann var í heild 18 hektarar að stærð. Gróðurkort af landinu sem brann sýnir að þar var aðallega mýrlendi með mýrastör og gulstör, graslendi og hrossanálarjaðar.

Daginn eftir, hinn 2. maí, kviknaði sinueldur á jörðinni Fáskrúðarbakka á Snæfellsnesi. Eldurinn kom upp sunnan vegar og varð fljótt að miklu báli í hvassri norðaustanátt. Breiddist hann til suðvesturs og varð lítið við ráðið, enda aðstæður til slökkvistarfs erfiðar í illfæru landi. Eldurinn fékk því að mestu að hafa sinn gang og brenna að ám og skurðum sem stöðvuðu útbreiðslu hans. Að austan og sunnan brann eldurinn að Kleifá og Laxá, niður til Straumfjarðarár en að norðan og vestan stöðvaðist hann við framræsluskurði. Til að kortleggja brunasvæðið var notuð Landsat gervitunglamynd sem tekin var um hádegisbil þann 7. maí. Í ljós kom að brunasvæðið á Fáskrúðarbakka var alls 3,19 km2 (319 ha) og er það næststærsta svæðið sem kortlagt hefur verið frá og með Mýraeldunum miklu vorið 2006. Þó er það aðeins um tuttugasti hluti af landinu sem brann á Mýrum. Gróðurkort af Fáskrúðarbakka sýnir að brunasvæðið náði einkum til framræsts flóa og mýrlendis með fjölbreyttu gróðurfari.

Aðfararnótt 13. maí kviknaði síðan eldur á 0,25 hektara svæði í Almannadal, austan við Rauðavatn í Reykjavík. Þar logaði glatt í lúpínusinu í ungum birki- og furuskógi. Slökkvilið réði fljótt niðurlögum eldsins sem hefði getað farið um miklu víðáttumeira svæði og að nálægum byggingum

Yfirlit yfir kortlagða gróðurelda frá árinu 2006
Dagsetning elds Svæði Gróðurlendi Brunnið land (ha)
30. mars 2006 Mýrar Mýrar og flóar 6.700
12. júní 2007 Miðdalsheiði Mosaþemba 9
16. apríl 2008 Kross og Frakkanes á Skarðsströnd Mýrar og lyngheiði 105
29. apríl 2008 Útmörk Hafnarfjarðar Lúpína 13
5. júní 2009 Víðivallargerði í Fljótsdal Graslendi með unglerki 0,5
22. júlí 2009 Við Helgafell ofan Hafnarfjarðar Mosaþemba 8
26. maí 2010 Jarðlangsstaðir á Mýrum Birkikjarr, mýri og graslendi 13
6. júní 2012 Heiðmörk Lúpína og furulundur 0,4
16. júní 2012 Ásland í Hafnarfirði Lúpína 1
3. ágúst 2012 Hrafnabjörg í Laugardal í Ísafjarðardjúpi Mýrlendi og kvistlendi 15
25. mars 2013 Gröf í Lundarreykjadal Tún, graslendi og mólendi 39
30. mars 2013 Hvammur í Skorradal Graslendi og kjarr 0,3
31. mars 2013 Merkihvoll á Landi Lúpína, gras og trjárækt 2
1. maí 2015 Norðan Stokkseyrar Mýrlendi 18
2. maí 2015 Fáskrúðarbakki, Snæfellsnesi Mýrlendi 319
13. maí 2015 Almannadalur, Reykjavík Lúpína, ungskógur 0,25