Sinueldar við Hafnarfjörð

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar fóru 29. apríl um svæði við Hafnarfjörð þar sem sinueldar höfðu komið upp undangengna daga og slökkvilið þurft að berjast við. Gengið var með stærstu brunaflekkjunum og útlínur þeirra kortlagðar með GPS-mælingum. Svæði það sem brann aðfararnótt 29. apríl við Kjóadal suðaustan Hvaleyrarvatns er langstærst að flatarmáli eða tæpir 8 hektarar. Í hlíðinni norðan við vatnið kom upp eldur 27. apríl og fór um svæði sem er um 1 hektari. Vestan vatnsins er annar minni blettur út með hlíðinni og reyndist hann hálfur hektari að stærð.

Að kveldi 19. apríl kom upp allmikill eldur í Setbergsholti sunnan Urriðakotsvatns. Breiddist hann upp hlíðina frá veginum og var slökktur við íbúðarbyggðina uppi í holtinu. Þar reyndist eldurinn hafa farið um 3 hektara svæði.

Á svæðunum sem skoðuð voru er það einkum lúpínuvaxið land sem hefur brunnið. Í lúpínubreiðum safnast upp mikill eldsmatur í stönglum af lúpínunni og mosa og grasi sem dafnar með henni. Talsvert tjón hefur einnig orðið á trjágróðri en hvergi hafði eldur þó hlaupið í þéttan, hávaxinn skóg. Hætta á sinueldum mun verða áfram fram eftir vori ef þurrt verður í veðri og næðingssamt, en slíkt veðurlag er algengt sunnanlands á vorin.

Búast má við að sinueldar verði viðvarandi og aukið vandamál á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi vegna aukins gróðurs í landi. Því veldur hlýnandi veðurfar, útbreiðsla lúpínu, aukin skógrækt og friðun lands fyrir búfjárbeit. Mikilvægt er að vera vel á varðbergi, stemma stigu við íkveikjum og bæta búnað til að fást við elda af því tagi sem komið hafa upp að undanförnu.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið unnið að kortlagningu og rannsóknum á áhrifum sinuelda frá því eldarnir miklu brunnu á Mýrum fyrir tveimur árum. Sumarið 2007 urðu einnig allmiklir eldar í mosaþembu á Miðdalsheiði.