Jafnlaunastefna

Markmið Náttúrufræðistofnunar Íslands er að hæft starfsfólk veljist til starfa og hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Launastefnu stofnunarinnar er ætlað að tryggja að starfsfólk njóti a.m.k. sambærilegra kjara og tíðkast hjá stofnunum með líka starfsemi. Laun geta verið árangurstengd ef samkomulag næst um slíkt milli starfsfólks og stofnunar. Að öðru leyti ráðast laun af kjarasamningum og fjárhagslegu svigrúmi stofnunarinnar.

Forstjóri, mannauðsstjóri, fjármálastjóri og trúnaðarmenn fylgjast með launaþróun.

Launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar og málefnalegar. Mikilvægt er að laun taki mið af þeim kröfum sem starf gerir til starfsmanns með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni. Einnig er mikilvægt að laun taki mið af hæfni og frammistöðu starfsfólks og hvetji starfsfólk til að leggja sig fram í starfi.

Öll kyn skulu fá sömu laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, samkvæmt skilyrði 18. og 19. gr. Jafnréttislaga (150/2020). Þau skulu einnig njóta sömu þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindum eða öðrum hætti. Með sömu launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir öll kyn. Markmið stofnunarinnar er að óútskýrður launamunur sé ekki til staðar. Komi í ljós launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur ef ekki er hægt að rökstyðja hann á málefnalegum grundvelli gildandi stofnanasamninga.

Til að fylgja eftir jafnlaunastefnu skuldbindur NÍ sig til að:

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012
  • Setja fram jafnlaunaviðmið sem skulu rýnd árlega ásamt virkni jafnlaunakerfisins
  • Framkvæma launagreiningu að minnsta kosti einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort munur mælist á launum eftir kyni
  • Vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum
  • Kynna jafnlaunastefnu árlega fyrir öllu starfsfólki ásamt niðurstöðum launagreininga
  • Gera jafnlaunastefnu aðgengilega almenningi og starfsfólki á ytri vef stofnunarinnar

Útgáfudagur 20.01.2020
Útgáfunúmer 1.0

Enduskoðuð útgáfa 24.02.2022
Útgáfunúmer 1.3