Breytingar á fuglalífi

Áhrif mannsins

Miklar umhverfisbreytingar hafa fylgt meira en ellefu alda mannvist á Íslandi. Ofbeit og skógareyðing fram eftir öldum hefur væntanlega haft mikil áhrif á varplönd og þar með lífsskilyrði margra fuglategunda. Hið sama má segja um framræslu og aðra skerðingu votlendis á síðasta mannsaldri. Ofveiði á ýmsum fuglategundum leiddi til hruns og jafnvel útdauða tegunda og innflutningur minks hafði mjög neikvæð áhrif á fuglalíf. Tvær fuglategundir hafa hætt varpi af mannavöldum, geirfugl er aldauða vegna ofveiði og keldusvínastofninn lognaðist hér útaf vegna framræslu og minks.

Fyrirsjáanlegar eru ýmsar langtímabreytingar á umhverfi fuglastofna hér á landi. Minnkandi beit, skógrækt og hlýnandi loftslag mun væntanlega hafa áhrif á margar tegundir en áhrifin munu verka í báðar áttir, sumar munu njóta góðs af þessum breytingum en aðrar verða fyrir skakkaföllum.

Framræsla votlendis er mesta gagngera búsvæðaröskun á Ísland. Markmiðið var að bæta ræktunar- og beitarskilyrði en óhjákvæmilegir fylgifiskar voru eyðilegging mikilvægra fuglasvæða. Hátt í 4.000 ferkílómetrar voru ræstir fram og hafði það áhrif á vatnsbúskap votlendis á mun stærra svæði. Ekkert tillit var tekið til náttúruverndar við þessar framkvæmdir sem fóru aðallega fram á árunum 1945–1970. Skógrækt mun valda meiri búsvæðabreytingum en aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir á komandi árum. Stefnt er að því að tífalda skógarþekju landsins fyrir aldamótin 2100 eins og kemur fram í skýrslunni Skógar á Íslandi: Stefna á 21. öld (pdf) og verði hún þá að minnsta kosti 12%. Þetta mun hafa neikvæð áhrif á marga bersvæðisfugla, eins og lóu og spóa.

Stofnbreytingar

Þekking á fuglalífi Íslands var afar brotakennd fram eftir öldum og það er ekki fyrr en upp úr miðri 18. öld sem sæmileg vitneskja liggur fyrir um hvaða tegundir verpa hér með vissu. Byggist það einkum á ferðum þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1750–1757, Færeyingsins Nikolaj Mohr 1780 og loks Íslandsdvöl Danans Frederik Fabers (1819–1821) og efnismiklum skrifum hans um íslenska fugla.

Breyting á útbreiðslu gamalgróinna varpfugla

Miklar breytingar hafa orðið á stofnum og útbreiðslu margra fuglategunda á síðustu tveimur öldum. Má þar nefna fýl sem fjölgaði gífurlega fram undir 2000 og breiddist hratt út. Jaðrakan var bundinn við Suðurlandsundirlendi fram yfir aldamótin 1900 en verpur nú á láglendi um land allt og jafnvel sums staðar í hálendinu. Gæsum hefur fjölgað mikið frá því um 1950; grágæs hefur breiðst út á láglendi og heiðagæs á hálendi.

Nýir varpfuglar

Þrjár tegundir hafa hætt hér varpi svo vitað sé: geirfugl sem dó út vegna ofveiði á 19. öld; keldusvín var fórnalamb minks og framræslu og varp síðast um 1970; og haftyrðill, hánorrænn fugl sem varp hér til 1995. Hins vegar hafa um 50 fuglategundir reynt hér varp frá því um 1800 eða á þeim tíma sem þokkalegar upplýsingar liggja fyrir um íslenska fugla. Innan við 20 þeirra hafa náð fótfestu, þar af helmingur frá miðri 20. öld. Þessir landnemar eru evrópskir að uppruna, að amerísku deilitegund kolþernu undanskilinni, og margir voru algengir gestir eða flækingar áður en þeir reyndu varp. Þeim fuglategundum sem ílentust hér um eða fyrir miðja 20. öld var jafnframt að fjölga í Evrópu eða þær að breiðast hratt út í aðdraganda landnáms á Íslandi, eins og skúfönd, hettumáfur, silfurmáfur og sílamáfur. Ýmsar aðrar náðu ekki fótfestu fyrr en heppileg búsvæði sköpuðust fyrir þær með trjárækt (glókollur og svartþröstur). Hlýnandi veðurfar á fyrri hluta 20. aldar sem og á síðustu árum greiddi fyrir landnámi sumra tegunda.