Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun

Tímamörk

Langtímaverkefni sem hófst árið 2012.

Samstarfsaðilar

Orka náttúrunnar (áður Orkuveita Reykjavíkur).

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Við virkjun jarðvarma geta viss mengunarefni borist út í andrúmsloftið með útblástursgufu og haft áhrif á umhverfið. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur vaktað gróður við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun síðan sumarið 2012 en megintilgangur vöktunarinnar er að kanna áhrif virkjananna á gróður í mosaþembum og fylgjast með hvort breytingar verða með tíma en mosaþembur með hraungambra Racomitrium lanuginosum eru allsráðandi í umhverfi virkjananna. Mosar taka upp vatn og efni úr andrúmsloftinu beint í gegnum blöð sín og safnast efni upp í þeim og geta valdið skemmdum. Sterk tengsl eru á milli magns efna sem mælast í mosanum og efnamengunar í andrúmslofti. Verkefnið er unnið fyrir Orku náttúrunnar.

Verkefnið hófst árið 2012 þegar vöktunarreitir voru settir upp og fyrstu gróðurmælingar fóru fram. Með endurteknum mælingum á um 5–10 ára fresti í vöktunarreitum er fylgst með ástandi mosaþekjunnar og skoðað hvort skemmdir sjáist á mosanum og þær skráðar og metnar. Einnig er skráð þykkt mosalagsins og tíðni æðplöntutegunda í reitum. Árið 2017 var bætt við efnagreiningum á mosasýnum, sem tekin eru í vöktunarreitum í mismikilli fjarlægð frá virkjunum, í þeim tilgangi að fá upplýsingar um styrk brennisteins og þungmálma  í mosa og skoða hvort það væru tengsl milli mosaskemmda og efnamagns. Sömu aðferðafræði við söfnun mosasýna og efnagreiningu, þó önnur mosategund sé notuð, er beitt og við lífvöktun (biomonitoring) í verkefninu Þungmálmar í mosa og í ICP-Vegetation-verkefninu í Evrópu.

Samantekt niðurstaðna

Járngerður Grétarsdóttir, Ágústa Helgadóttir og Rannveig Thoroddsen 2023. Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðar virkjun og Nesjavallavirkjun árið 2022. Niðurstöður gróður og efnamælinga og samanburður við mælingar 2012 og 2017. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-23008. Unnið fyrir Orku náttúrunnar. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Járngerður Grétarsdóttir, Ágústa Helgadóttir  og Rannveig Thoroddsen 2019. Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun. Niðurstöður gróður- og efnamælinga 2017. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-19002. Unnið fyrir Orku náttúrunnar. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ágústa Helgadóttir, Ásta Eyþórsdóttir  og Sigurður H. Magnússon 2013. Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-13007. Unnið fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Tengiliður

Járngerður Grétarsdóttir, gróðurvistfræðingur.