Rannsóknir á hrafnsönd

Hrafnsendur Melanitta nigra (1. mynd) eru með sjaldgæfustu öndum sem verpa á Íslandi. Þær er fyrst og fremst að finna á Mývatni og öðrum viðlíka votlendissvæðum í Þingeyjarsýslum.

Hrafnsönd er ein þeirra tegunda sem er að finna á íslenskum válista, ekki vegna þess að hrafnsöndum fækki, heldur vegna þess að varpstofninn er næsta lítill, talinn vera aðeins um 300 pör (Ævar Petersen 1998).

Sumarið 2009 hófust rannsóknir á hrafnsöndum á Sandi og Sílalæk í Aðaldal. Litlar sem engar rannsóknir höfðu fram að þeim tíma verið framkvæmdar á þessari fuglategund hérlendis nema við Mývatn. Þar hefur vöktun stofnsins verið fram haldið frá árinu 1974 á vegum Náttúrurannsóknastöðvarinnar auk þess sem upplýsingar eru til frá einstaka árum fyrir þann tíma. Rannsóknir hafa mest beinst að þætti hrafnsanda (og annarra vatnafugla) í lífkerfi Mývatns (t.d. Arnþór Garðarsson 1991, 2006, Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson 1994, 2004), atferli þeirra (Bengtson 1966, Ólafur K. Nielsen 1998) og lífslíkum (Fox, Petersen og Frederiksen 2003).

Rannsóknirnar í Aðaldal miða fyrst og fremst að því að fá nánari vitneskju um ferðir og vetrarstöðvar íslenskra hrafnsanda. Aðeins fáir endurfundir hafa verið til þessa úr hefðbundnum fuglamerkingum. Þær bentu til þess að íslenskar hrafnsendur héldu sig á svæðinu frá Suður-Englandi til Portúgals (Ævar Petersen 1998). Nákvæmari upplýsingar um farhætti hafa ekki verið fyrir hendi, s.s. hvenær fuglarnir koma á vetrarsvæðin, hve lengi þeir dvelja þar, hvenær þeir yfirgefa vetrarstöðvarnar undir vor, hvort íslenskir fuglar haldi sig út af fyrir sig á veturna eða blandist fuglum frá öðrum varpsvæðum, o.s.frv.

Í Aðaldal var beitt tækni sem hefur verið að ryðja sér meira og meira til rúms í fuglarannsóknum. Litlu tæki sem nemur breytingar á ljósmagni – svokölluðum ljósrita (geolocator) – var komið fyrir á löppum hrafnsanda sumarið 2009 (2. mynd). Tækin eru lítil, aðeins 1,8 grömm á þyngd, og eru því ekki útbúin með sendi. Þess vegna verður að fanga sömu fuglana á ný til að hala niður upplýsingum um ferðalög þeirra. Notkun ljósrita byggist á þeirri forsendu að fuglarnir komi aftur á sama varpsvæði sem virðist vera reyndin með hrafnsendur. Ennfremur hjálpar til ef fuglar eru langlífir.

Ljósritar voru settir á alls 13 hrafnsendur sumarið 2009 og náðust níu þeirra aftur ári síðar. Þykja það góðar endurheimtur miðað við ýmsar aðrar fuglategundir sem ljósritar hafa verið settir á. Átta fuglanna náðust á hreiðri en einn fannst dauður í silunganeti. Af þessum átta hafði einn misst ljósritann sem hann hafði sést með nokkrum dögum áður. Upplýsingar fengust því af átta fuglum.

Í ljós kom að íslensku fuglarnir höfðu haldið sig á ýmsum strandsvæðum frá NV-Írlandi, við Vestureyjar, vestur- og austurströnd Skotlands, vesturströnd Wales, suðurströnd Englands og við strendur Spánar og Portúgals. Margir fuglanna héldu vetrarlangt norðar en merkingar höfðu áður bent til, hvort sem það skýrist af takmörkuðum eldri gögnum eða að hrafnsendur haldi sig núorðið norðar. Seinni skýringin væri í samræmi við það að ætla mætti vegna loftslagsbreytinga síðari ára en endurfundir merktra hrafnsanda eru flestar komnar til ára sinna. Á 3. mynd er sýnd gróf útfærsla af niðurstöðum fyrir eina hrafnsönd sem hélt sig við norðvestanvert Írland síðastliðinn vetur en nánar á eftir að vinna úr niðurstöðum.

Ein áhugaverð niðurstaða var sú að fuglar frá sama varpsvæði á Íslandi héldu sig á mörgum mismunandi vetrarsvæðum. Þó má segja að slíkt sé skynsamleg ráðstöfun af þeirra hálfu út frá þróunarlegu sjónarmiði. Ef einhver meiri háttar óhöpp eiga sér stað á einu vetrarsvæði þá er a.m.k. ekki hætta á að allir fuglarnir drepist á sama tíma. Prestige olíuslysið sem átti sér stað árið 2002, svo dæmi sé tekið, varð á því svæði við Spán þar sem íslenskar hrafnsendur halda til og búast má við að margar hrafnsendur hafi farist í olíu. Ekki svo að olíuslys stjórni þróun hrafnsanda en ýmsir náttúrulegir atburðir geta átt sér stað sem hafa áhrif á lífslíkur fuglanna.

Margvíslegar aðrar upplýsingar um hrafnsendur hafa komið fram við rannsóknirnar í Aðaldal þ.á m. um stofnstærð á svæðinu, varpkjörlendi, varphætti (eggjafjölda í hreiðri, varpárangur), hvernig hrafnsendur bregðast við þegar þær eru fangaðar á hreiðri, fæðu, o.s.frv. Í ljós hefur komið að votlendið við Sand og Sílalæk stendur undir nærri 20% af íslenska hrafnsandastofninum. Almennt talað eru næsta litlar upplýsingar til um lifnaðarhætti hrafnsanda hvar sem er í heiminum en þær verpa strjált í norðanverðri Evrópu, frá Íslandi, um Skandinavíu og austur um vestanvert Rússland. Í N-Ameríku verpur systurtegund sem lengi var talin deilitegund hrafnsandar en er nú litið á sem sérstaka tegund.

Bretar hafa fylgst með og tekið þátt í rannsóknum okkar af áhuga. Bæði er svo að hrafnsendur eru sárasjaldgæfar sem varpfuglar á Bretlandseyjum en frekar algengar sem vetrargestir. Litlar upplýsingar hafa legið fyrir um uppruna þessa vetrarfugla en álitið að þeir komi frá öllu varpsvæði tegundarinnar. Áhugi Breta helgast ekki síst af því að hrafnsendur í vetrardvöl halda sig mikið á svæðum sem nú er verið að skoða sem hugsanleg svæði fyrir vindmyllur til raforkuframleiðslu.

Rannsóknirnar í Aðaldal eru samstarfsverkefni þriggja stofnana, Danmarks Miljøundersøgelser (NERI) í Danmörku, British Antarctic Survey (BAS) á Englandi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Einnig hafa tekið þátt ýmsir starfsmenn frá Wildfowl and Wetlands Trust í Bretlandi.

Þakkir

Undirritaðir skipuleggjendur rannsóknaverkefnisins þakka öllu aðstoðarfólki við útivinnu, þeim Geoff Hilton, Anne Harrison, Hannah Robson, Peter Cranswick og Jim Williams. Landeigendum á Sandi og Sílalæk, sérstaklega þeim Gunnari Óla Hákonarsyni og Vilhjálmi Jónassyni, er þökkuð aðstoð, velvild og stuðningur við verkefnið. Þá kunnum við Wildfowl and Wetlands Trust í Englandi bestu þakkir fyrir fjárstuðning til kaupa á ljósritum. Að endingu lánuðu Daníel Bergmann og Geoff Hilton ljósmyndir og eiga þeir þakkir skildar.

Heimildir

Arnþór Garðarsson 1991. Fuglalíf við Mývatn og Laxá. Bls. 279-319 í: Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson (ritstj.). Náttúra Mývatns. Hið ísl. Náttúrufræðifélag, Reykjavík. 372 bls.

Arnþór Garðarsson 2006. Temporal processes and duck populations: examples from Mývatn. Hydrobiologia 567(1): 89-100.

Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson 1994. Responses of breeding duck populations to changes in food supply. Hydrobiologia 279/280: 15-27.

Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson 2004. Resource limitation of diving ducks at Mývatn: Food limits production. Aquatic Ecol. 38: 285-295.

Bengtson, S.-A. 1966. Observationer rörande sjöorrens (Melanitta nigra) sexuella beteende på häckplatsen med speciellt avseende på lekgruppsbeteende. Vår Fågelvärld 25(3): 202-226.

Fox, A.D., Ævar Petersen & M. Frederiksen 2003. Recapture and survival rates of breeding female Common Scoter at Mývatn, Iceland, 1927-1958. Ibis 145 (2): 346 (abstract) + E94-E96 (online).

Ólafur K. Nielsen 1998. Atferli kafandarunga við fæðuleit í Mývatni. Náttúrurannsóknastöð við Mývatn. Fjölrit nr. 2. 35 bls.

Ævar Petersen 1998. Íslenskir fuglar. Vaka-Helgafell, Reykjavík. 312 bls.

júlí 2010

Ib Krag Petersen, Danmarks Miljøundersøgelser, Aarhus Universitet, Danmörku

Ævar Petersen, Náttúrufræðistofnun Íslands