Jöklar á Tröllaskaga og umhverfi þeirra

Á milli allt að 1500 m hárra fjalla Tröllaskaga, sem skilur að Eyjafjörð og Skagafjörð, eru djúpar skálar og dalir sem jöklar ísaldar hafa grafið fyrir meira en 10.000 árum. Í því völundarhúsi sem dalirnir og fjöllin skapa leynast yfir 150 smájöklar sem þekja um 150 km² lands. Flestir jöklanna sitja í botnum skála og dala sem snúa undan sólu en slíkir jöklar kallast ýmist dal-, skálar- eða hvilftarjöklar. Jöklarnir eru yfirleitt um og yfir 1 km² að stærð en nokkrir ná 3–5 km² stærð. Fáir gera sér grein fyrir þessum mikla fjölda jökla á svæðinu en margir þeirra eru vel faldir og sjást illa eða ekki frá alfaraleiðum.

Líkt og meginjökullinn sem huldi Ísland á síðasta jökulskeiði er talið að jöklar á Tröllaskaga hafi horfið að mestu eða öllu leiti fyrir um 8-9.000 árum. Tröllaskagi var líklega jökullaus um 3.000 ára skeið, eða þar til jöklar tóku að myndast og stækka aftur fyrir um 5.500 árum. Aldursgreiningar lífrænna leifa og öskulaga í jökulgörðum sýna að jöklar hafa verið til staðar í fjalllendi skagans síðustu árþúsundir. Stærð þeirra og fjöldi hefur þó sveiflast nokkuð með loftlagsbreytingum á þessum tíma. Jöklarnir eru taldir hafa náð hámarksútbreiðslu á árunum 1750–1900, í lok þess kuldatímabils sem almennt er kallað litla ísöld.

Í dag liggja flestir jöklar á Tröllaskaga í u.þ.b. 800-1300 m hæð yfir sjó. Jöklunarmörkin eru hæst innarlega á skaganum en lækka til norðurs vegna aukinnar úrkomu nær opnu hafi og lægri meðalsumarhita. Snælína jöklanna sveiflast mjög á milli ára, sum ár eru jöklarnir alveg huldir vetrarsnjó að hausti og snælína þá í raun neðan þeirra. Það gerist þegar vetrarákoma hefur verið mikil eða þegar sumur eru köld. Önnur ár tekur hinsvegar upp allan vetrarsnjó í sumarleysingum og ákoman þá engin eða neikvæð það árið, þetta gerist helst í hlýjum sumrum eða þegar vetrarákoma er mjög lítil.

Daljökla má greina frá skálarjöklum á þann hátt að þeir skríða einhvern spöl niður eftir dalnum en sitja ekki eingöngu í botnum skála og dala líkt og skálar- og hvilftarjöklarnir. Eiginlegir daljöklar eru fáir eftir á Tröllaskaga. Gljúfurárjökull í Skíðadal inn af Dalvík er gott dæmi um daljökul. Hann fyllir dalbotn Gljúfurárdals þaðan sem hann skríður úr um 1200 m hæð niður dalinn og stöðvast í 600 m hæð yfir sjó.

Ársúrkoma er talinn vera um 2000-3000 mm á háfjöllum Tröllaskaga. Hún er hins vegar ekki næg til að jöklar myndist á fjöllunum sjálfum við það loftslag sem ríkt hefur síðustu árþúsundir. Hins vegar safnast snjórinn í meira mæli en úrkoma gefur til kynna í dal- og skálarbotna. Þangað berst mikill snjór með skafrenningi ofan af fjallatoppum og sest þar til. Auk þess tollir snjór illa í bröttum hömrum og hlíðum er umlykja marga jöklana. Þannig auka tíð snjóflóð sem falla niður á jöklana enn á ákomu þeirra. Lega dalbotna og skála er einnig afar mikilvæg fyrir tilvist jöklanna. Flestir sitja í skuggsælum botnum er snúa í norðlægar áttir, þ.e. undan sterkustu sumarsólinni, en þar er leysingin minnst á sumrin. Því má segja að samspil nokkurra umhverfisþátta geri það að verkum að svo margir jöklar finnast á Tröllaskaga sem raun ber vitni.

Talsverður grjótburður er niður á jöklana með snjóflóðum og vegna frostveðrunar hamrabelta. Telja mætti þennan grjótburð til ákomu jöklanna því urðin blandast snjó og ís á ákomusvæðum og verður þá í raun hluti af jöklunum og berst síðar með ísflæðinu niður á leysingasvæðin. Þegar snjó og ís leysir kemur urðin í ljós á yfirborði og myndar eins konar teppi yfir jaðar og leysingasvæði. Vegna einangrunaráhrifa urðarkápunnar dregur hún úr leysingu jökulíssins sem gerir þeim jöklum kleift að teygja sig lengra niður í dali og skálar en þeir hefðu gert án aðkomu urðarkápunnar. Í sumum tilfellum hylur urðin nær allan jökulinn og hafa slíkir jöklar ýmist verið kallaðir „jöklar huldir urð“ eða „grjótjöklar“. Dæmi um slíkan jökul er Kvarnárjökull við Skíðadal sem er að mestu leiti hulinn stórgrýtisurð.

Einnig finnst talsvert af jöklum á Tröllaskaga sem eru svo til alveg lausir við urð á yfirborði en þeir jöklar eru nær aldrei umluktir bröttum hamrahlíðum. Slíkir jöklar bregðast jafnan mjög ört við breytingum í loftslagi og þess vegna er vöktun á jöklabúskap þeirra góður mælikvarði á breytingar á veðurfari og loftslagi. Urðarklæddir sporðar eru hinsvegar ekki eins næmir fyrir skammtíma breytingum á loftslagi eða jöklabúskap þar sem urðin dempar áhrifin og svörun jökulsins verður hægari.

Framhlaupsjöklar eru jöklar sem bregðast ekki jafnharðan við loftlagsbreytingum líkt og aðrir jöklar heldur hlaupa fram með látum á nokkurra áratuga fresti. Þremur slíkum framhlaupsjöklum hefur verið líst á Tröllaskaga. Rannsóknir jarðfræðinga á Náttúrufræðistofnun Íslands benda hinsvegar til að framhlaupsjöklar á svæðinu geti verið mun fleiri en áður hefur verið talið. Framhlaup jökla á Tröllaskaga og Vestfjörðum hafa þá óútskýrðu sérstöðu að standa yfir í 3–8 ár en í stóru jöklum landsins standa þau yfir í nokkra mánuði eða allt að 1-2 ár.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar á jöklum Tröllaskaga felast í því að kortleggja landmótunarumhverfi jöklanna og auka þannig þekkingu okkar á eðli þeirra og skilja betur samspil jöklanna við umhverfi sitt auk þess að bæta fremur brotakennda jöklunarsögu svæðisins. Einnig eru breytingar og afkoma nokkurra valdra jökla vöktuð til að fylgjast með áhrifum veðurfars og loftlagsbreytinga á þá, sem svo mætti bera saman við viðbrögð stóru hveljöklanna við loftlagsbreytingum.

Aukin þekking á nútíma jöklabreytingum og jöklunarsögu Tröllaskaga styður við annað rannsóknarverkefni Náttúrufræðistofnunar, sem er rannsóknir á ísaldarsögu og jöklabreytingum síðasta jökulskeiðs. Verkefnin koma til með að styðja hvort annað og á endanum mynda yfirgripsmikla þekkingu á jökla- og umhverfisbreytingum Tröllaskaga og á landinu í heild.

11. júlí 2016, Skafti Brynjólfsson