Drangajökull

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Ber þar hæst landmótun jökla, fornloftslag og umhverfissaga. Innan svæðisins eru fossar í Rjúkandi, Hvalá og Eyvindarfjarðará, sem einnig eru tilnefndir vegna jarðminja, og Kaldalón, sem tilnefnt er vegna vistgerða á landi. Svæðið nær að auki yfir Æðey að hluta, sem tilnefnd er vegna fugla, og svæðið Furufjörður–Munaðarnes, sem tilnefnt er vegna sela.

Mörk

Svæðið nær yfir Drangajökul og nágrenni hans.

Suðurmörk svæðisins liggja um Ófeigsfjarðarheiði frá Melgraseyri í vestri suður fyrir Hraundal og Rauðanúpsvatn, síðan eftir farvegi Rjúkanda austur í Ófeigsfjörð. Norður mörk eru núverandi suðurmörk Hornstrandafriðlands.

Lýsing

Tilkomumikið landslag mótað af jöklum ísaldar og nokkuð fjölbreytileg jarðfræði. Mjög virk landmótunarferli eru við skriðjökla Drangajökuls auk þess finnst víða mikið af landformum og setmyndunum, t.d. jökulgarðar, leirur, áreyrar og fornar strandlínur sem tengjast hörfun ísaldarjökulsins. Litfögur setlög og hraunlög frá kulnaðri megineldstöð á svæðinu finnast t.d. í Hrafnsfirði, Leirufirði og Kaldalóni.

Landslag á svæðinu er tilkomumikið, jarðfræði nokkuð fjölbreytileg, gróðurfar þykir sérstakt og náttúrufegurð almennt mikil á svæðinu. Dalir og hvilftir eru grafnar af jöklum ísaldar í almennt einsleitan og mjög reglulegan jarðlagastafla. Á milli basalthraunlaga eru rauðleit setlög, oftast forn jarðvegur að uppruna. Í námunda við gamlar megineldstöðvar, til dæmis í Leirufirði, Hrafnsfirði og innst í Kaldalóni finnast ljósleit líparít og/eða dökk andesít lög sem setja svip á landslagið.

Talsvert er um landform svo sem jökulgarða, fornar strandlínur og sethjalla sem vitna um sveiflur skriðjökla og mun stærra jökulhvel en núverandi Drangajökull, við lok síðasta jökulskeiðs fyrir um 9.000-13.000 árum. Óvenju greinilegir og margir jökulgarðar frá lokum síðasta jökulskeiðs eru varðveittir á láglendi í Grunnavíkurhreppi forna (frá Grunnavík og Höfðaströnd, austur um Leirufjörð, Kjós og í Hrafnsfjörð). Í jöklafræðilegum skilningi er svæðið mjög sérstakt. Drangajökull hefur mun lægri jöklunarmörk og betri afkomu en aðrir jöklar landsins og rannsóknir á jökulmenjum í Leirufirði, Reykjarfirði og á hálendinu umhverfis núverandi Drangajökul benda til hins sama um forn-Drangajökul, og að hann hafi verið þaulsætari en aðrir jöklar landsins við lok síðasta jökulskeiðs. Aldursgreiningar á jökulgörðum í Leirufirði og Reykjarfirði hafa gert jarðfræðingum kleift í fyrsta skipti að tengja framrás íslensks jökuls (skriðjökuls í Leirufirði) við stórar þekktar loftlagssveiflur tengdar snöggum breytingum á hafstraumum í Norður-Atlantshafi sem höfðu áhrif á fornjökla umhverfis allt Norður-Atlantshafið.

Nútíma landmótunarferli eru mjög virk á svæðinu, skriðjöklarnir í Kaldalóni, Leirufirði og Reykjarfirði eru framhlaupsjöklar sem ganga fram óreglulega. Þeir rjúfa og dýpka dalina en byggja um leið ýmis landform og jökulgarða við jaðrana. Jökulár sem koma undan skriðjöklunum bera fram mikið lausefni, sem fyllir dalbotnana árseti og fjölskrúðugar leirur byggjast út í fjarðarbotnana. Stöku smájöklar, grjótjöklar og sífannir finnast í hvilftar- og dalbotnum, auk þess sem ummerki eru um sífrera til hæstu fjalla en allt hefur þetta mótandi áhrif á landslag og ásýnd svæðisins.  

Uppfærsla 7.10.2021: Rannsóknir á trjáholuförum við Ófeigsfjörð;https://utgafa.ni.is/skyrslur/2019/NI-19009.pdf

Forsendur fyrir vali

Vísindalegt gildi er talsvert eða mikið. Nokkrar nýlegar jarðfræðirannsóknir frá svæðinu benda til talsverðs vísindalegs gildis svæðisins, sérstaklega fyrir jöklunarsögu, fornloftlagssögu og umhverfissögu landsins. Óvenju margir vel varðveittir fornir jökulgarðar finnast á láglendi í Grunnavíkurhreppi. Gott aðgengi að mjög virku og nokkuð sérstöku landmótunarumhverfi í Kaldalóni, beintengt skriðjökli í Kaldalóni. Mikil víðernisupplifun og svæðið nær óraskað.

Ógnir

Möguleg virkjun Vatnsfalla getur haft talsverð áhrif á víðerni og ásýnd svæðis auk þess að mögulega raska ákveðnum jarðminjum.

Almennt eru ógnir litlar á svæðinu. Það er að mestu úr byggð en þar er nú aðeins búið á þremur bæjum og aðgengi fremur erfitt inn á megnið af svæðinu. Vanda þarf til og fara ekki of frjálslega með nýframkvæmdir í tengslum við forna byggð og núverandi orlofsbyggð á svæðinu, t.d. framkvæmdir við varnargarða, slóða, vegi og smávirkjanir. Ekki verður séð að almenn ferðamennska um svæðið raski jarðminjum, s.s. gönguferðir og reiðmennska á sumrin, skíðaferðir og vélknúin umferð á snævi þakinni og frosinni jörð að vetri

Í þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og sem samþykkt var á Alþingi janúar 2013 (http://www.althingi.is/altext/141/s/0892.html) er Hvalárvirkjun í orkunýtingarflokki virkjunarkosta. Austurgilsvirkjun er í orkunýtingarflokki í tillögum verkefnastjórnar 3 áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar um flokkun virkjunarkosta og landsvæða (http://www.ramma.is/media/verkefnisstjorn-gogn/RA3-Lokaskyrsla-160826.pdf).

Aðgerðir til verndar

Tryggja varðveislu jarðminja, sérstaklega landform og setmyndanir sem tengjast hörfun ísaldarjökulsins og virk landmótunarferli við skriðjökla Drangajökuls. Varðveita umfangsmikil lítt snortin víðerni.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Snæfjallahreppur hinn forni Aðrar náttúruminjar
Kaldalón Aðrar náttúruminjar
Drangar á Ströndum Óbyggð víðerni

Heimildir

Anders Schomacker, Skafti Brynjólfsson, Julie Andreassen, Esther Ruth Guðmundsdóttir, Jesper Olsen, Bent Vad Odgard, Lena Håkansson, Ólafur Ingólfsson and Nicolaj K. Larsen, 2016. The Drangajökull ice cap, northwest Iceland, persisted into the early-mid Holocene. Quaternary Science Reviews 148, 68-84.

Dave Harning, Áslaug Geirsdóttir, Gifford Miller and Leif Anderson. 2016. Episodic expansion of Drangajökull, Vestfirðir, Iceland, over the last 3 ka culminating in its maximum dimension during the Little Ice Age. Quaternary Science Reviews 152, 118-131.

Skafti Brynjólfsson. Dynamics and glacial history of the Drangajökull ice cap, Northwest Iceland. PhD thesis, Joint degree; Norwegian University of Science and Technology and University of Iceland, 24th September 2015 Trondheim, Norway.

Skafti Brynjólfsson, Anders Schomacker, Esther Ruth Guðmundssfóttir and Ólafur Ingólfsson, 2015. A 300-year surge history of the Drangajökull ice cap, northwest Iceland, and its maximum during the Little Ice Age. The Holocene 25(7), 1076-1092.

Skafti Brynjólfsson, Anders Schomacker, Niels Korsgard and Ólafur Ingólfsson, 2016. Surges of the Drangajökull ice cap, Northwest Iceland. Earth and Planetary Science Letter 450, 140-151.

Skafti Brynjólfsson, Anders Schomacker, Ólafur Ingólfsson and Jakob K. Keiding, 2015. Late Weichselian-Early Holocene glacial history of northest Iceland, constrained by 36Cl cosmogenic exposure ages. Quaternary Science Reviews 126, 140-157.

Skafti Brynjólfsson, Anders Schomacker and Ólafur Ingólfsson, 2014. Geomorphology of the Drangajökull ice cap, NW Iceland, with focus on its three surge-type outlets. Geomorphology 213, 292-304.

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05

Size

1.281,0 km2

Flokkun

Virk ferli - Rof og setmyndun

Jarðsaga

Skeið: Forsögulegur tími, Sögulegur tími
Tími: Nútími
Aldur: 10-12.000 ára

Flokkun

Berggrunnur - Jarðsaga og steingervingar

Jarðsaga

Skeið:
Tími: Míósen
Aldur: 12-14 milljón ára