Veiðivötn-Vatnaöldur

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Þar eru gígaraðir í mesta eldstöðvakerfi landsins og upptök margra af mestu hraungosum landsins á nútíma. Svæðið nær yfir tillögusvæðið Veiðivötn, sem tilnefnt er vegna fugla, og að hluta yfir Vatnajökulsþjóðgarð, sem tilnefndur er vegna vistgerða á landi, ferskvatnsvistgerða, fugla og sela.

Mörk

Suðvesturhluti eldstöðvakerfis Bárðarbungu.Liggur að Vatnajökulsþjóðgarði til norðausturs. Liggur að Tungnaá til suðausturs og suðurs að Krókslóni, Þórisvatni og Köldukvísl í norðvestri.

Lýsing

Eldstöðvakerfi Bárðarbungu má telja mesta eldstöðvakerfi landsins. Í Bárðarbungu er mikil megineldstöð sem liggur nánast yfir miðju heita reitsins. Henni tengjast tvær af mestu gosreinum landsins, Veiðivatnareinin til suðvesturs að Landmannalaugum og Dyngjuhálsreinin til norðausturs að Dyngjufjöllum, auk annarrar megineldstöðvar við Hamarinn. Segja má að hér liggi mið-Atlantshafshryggurinn í gegn um miðjan heita reitinn. Margar stærstu gosmyndanir landsins á nútíma, svo sem Þjórsárhraunið mikla og Bárðardalshraun, eru upprunnar í Bárðarbungukerfinu og þar er fjöldi stórkostlegra jarðminja sem bera vitni um landrek og eldvirkni í jökli, í vatni og á þurru landi.

Nánari lýsing

Við landnám var víðfeðmt lón á Veiðivatnasvæðinu sem nefnt hefur verið Langalón. Árið 871 opnaðist að minnsta kosti 42 km löng gossprunga í Langalóni í Veiðivatnagosreininni og náði gossprungan suður í Torfajökulssvæðið. Í Langalóni kom upp mikið magn af basaltgjósku sem myndar hina feiknastóru gíga sem nú heita Vatnaöldur. Í Torfajökli gaus hins vegar líparíti, bæði gjósku og hrauni. Þar rann Hrafntinnuhraun. Í þessu gosi myndaðist þekkt öskulag sem kallað hefur verið Landnámslagið, en það markar upphaf sögulegs tíma á Íslandi. Óvissa aldursgreiningarinnar er aðeins tvö ár til eða frá, en ártalið er fengið úr ískjarna frá Grænlandsjökli.

Árið 1477 gaus samtímis í Torfajökli, í Langalóni og í sjálfri Bárðarbungu. Í gosinu mynduðust Laugahraun, Námshraun, Norðurnámshraun, Frostastaðahraun og Ljótipollur sunnan Tungnaár, auk hrauna og gíga norðan Tungnaár þar sem nú heitir í Veiðivötnum. Gossprungan var að minnsta kosti 60 km löng og yfir 100 km löng ef Bárðarbunga er talin með. Í Langalóni mynduðust miklir sprengigígar og stærstur hluti gosefna var basaltgjóska sem dreifðist til austurs og norðausturs. Laugahraun og Námshraun eru líparíthraun. Eftir Veiðivatnagosið var Langalón að mestu orðið fullt af gosefnum. Grunnvatnsstaða er þó enn há á Veiðivatnasvæðinu með fjölda tjarna og vatna, þó ekki sé þar lengur eiginlegt lón.

Yngstu gosminjar í Veiðivatnareininni eru frá Trölleldum 1862–1864. Tröllagígar liggja meðfram Bláfjöllum að norðvestan og teygja sig þaðan í átt að Hamrinum. Tröllahraun rann frá þeim til vesturs og suðvesturs meðfram Gjáfjöllum norðanverðum. Trölleldar hófust 30. júní 1862 og þeim lauk síðla hausts 1864, en ekki er vitað hversu samfelld virknin var. Sennilega gaus einnig undir jökli í byrjun. Sigurður Þórarinsson taldi eftirtektarvert um gosið í Tröllagígum, hversu þrálát og útbreidd „móða“ fylgdi því. Þessi móða lýsti sér svipað og í Skaftáreldum (blámi og mistur í lofti, sól rauð) og hafði svipuð skaðvænleg áhrif á grös og grasrætur.

Fjölmargar forsögulegar gosminjar eru á svæðinu svo sem Drekahraun sem talið er runnið fyrir um 3.000 árum, en það er talið hafa runnið niður með Tungná og Þjórsá suður fyrir Búrfell þar sem það kallast Búrfellshraun. Þetta hraun er talið vera um 7 km3 og er meðal mestu hrauna sem runnið hafa á Íslandi á nútíma. Fontur, Saxi og Máni eru miklir gjóskugígar sem raða sér eftir sigdal skammt austan við Þórisvatn. Aldur þeirra er óviss. Það virðist regla á þessu svæði að það myndast sigdalir samhliða sprungugosum.

Forsendur fyrir vali

Eldstöðvakerfi Bárðarbungu er mesta eldstöðvakerfi landsins. Það liggur yfir miðju heita reitsins og segja má að þar liggi mið-Atlantshafshryggurinn í gegn um heita reitinn. Í þessu kerfi hafa runnið mörg af mestu hraungosum landsins á nútíma. Mjög áhugavert samspil við Torfajökulsmegineldstöðina.

Jarðminjasvæðið er einstakt á heimsvísu og hefur bæði mjög hátt vísindagildi og fræðslugildi. Svæðið er heildstætt, lítt raskað og hefur þannig hátt gildi sem landslag. Þar er mikil víðernisupplifun.

Ógnir

Virkjanaframkvæmdir (Bjallavirkjun og Tungnaárlón) eru ógn þar til virkjanakostir undir verndarflokki rammaáætlunar hafa verið friðaðir. Ferðamennska og utanvegaakstur þar sem svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.

Aðgerðir til verndar

Nauðsynlegt er að stýra umferð um svæðið. Ekki er mælt með mikilli uppbyggingu innviða á þessu svæði, en ekki er gerð athugasemd við núverandi hefðbundnar nytjar.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Náttúruverndarlög Aðrar náttúruminjar
Vatnajökulsþjóðgarður Heimsminjaskrá
Vatnajökulsþjóðagarður Þjóðgarður
Veiðivötn Aðrar náttúruminjar
24 Tungnaárlón og 25 Bjallavirkjun Rammaáætlun

Heimildir

Árni Hjartarson 2011. Víðáttumestu hraun Íslands. Náttúrufræðingurinn 81: 37-49.

Blake, S. 1982. Magma mixing and hybridization processes at the alkalic, silicic, Torfajökull central volcano triggered by tholeiitic Veidivötn fissuring, South Iceland. J. Volcanol. Geotherm. Res., 22: 1-31.

Grönvold, K., Óskarsson, N., Johnsen, S.J., Clausen, H.B., Hammer, C.U., Bond, G. and Bard, E. 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land sediments. Earth Planet. Sci. Lett. 135: 149-155.

Guðrún Larsen 1984. Recent volcanic history of the Veiðivötn fissure swarm, Southern Iceland. - An approach to volcanic risk assessment. J. Volcanol. Geotherm. Res. 22: 33-58.

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05

Size

1.253,0 km2

Flokkun

Virk ferli - Eldvirkni og höggun

Jarðsaga

Skeið: Sögulegur tími
Tími: Nútími
Aldur: Síðast gaus 1862-1864