Geysir

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Geysir í Haukadal er frægasti goshver heims og sá sem gefur öllum erlendum gosverum nafn (geyser). 

Mörk

Jarðhitasvæðið sem kennt er við Geysi. Yfirborðsummerki jarðhita ásamt jarðhitakerfinu í heild sinni.

Afmörkun svæðisins miðar að því að ná utan um yfirborðsummerki jarðhita á svæðinu.

Lýsing

Geysir í Haukadal er frægasti goshver heims og sá sem gefur öllum erlendum gosverum nafn (geyser). Það skýrist af því að hann var löngu þekktur í Evrópu sem mikið furðuverk þegar Vesturlandabúar uppgötvuðu önnur goshverasvæði, t.d. í Ameríku og á Nýja Sjálandi. Við Geysi er mikið kísilhverasvæði með samfelldu hverahrúðri á stóru svæði. Sumir kísilhveranna eru eða hafa verið goshverir. Gufuhverir, leirhverir og leirugir vatnshverir finnast einnig. Upp af svæðinu rís Laugarfjall, ávalur líparíthryggur. Suður af hverasvæðinu er allmikið mýrlendi og teygir jarðhitinn sig þangað. Jarðhitasvæðið virðist tengjast skástígum sprungum sem líklega eru hluti suðurlandsskjálftabeltisins.

Forsendur fyrir vali

Frægasta goshverasvæði í Evrópu og eitt fárra sem þekkt var í árhundruð. Á svæðinu er mikill fjöldi hvera og lauga af mismunandi gerðum. Miklar rannsóknir hafa farið fram í gegnum aldirnar á goshegðun Geysis og Strokks, tengslum við jarðskjálfta, gróðri á svæðinu, á örverum í hverunum og fleira. Geysir gefur erlendum hverum nafn „geyser”. Geysissvæðið er einstakt á heimsvísu með hátt vísindalegt gildi, mikið fræðslu- og upplifunargildi.

Ógnir

Helstu ógnir eru ferðamennska og nýting jarðhita. Umtalsvert rask einkum vegna ferðamennsku en einnig vegna nýtingar. Hverahrúður er mikið skemmt og orðið að ljósri möl vegna átroðnings. Þjóðvegur liggur í gegnum suðurhluta svæðisins.

Aðgerðir til verndar

Mikilvægt að koma í veg fyrir að fólk gangi á hrúðursvæðinu og tryggja þarf óhindrað flæði jarðhitavatns um svæðið. Aðgangsstýring ferðamanna gæti þurft á álagstímum.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Haukadalur og Almenningur Aðrar náttúruminjar
Geysissvæðið Náttúruvætti
78 Geysir Rammaáætlun

Heimildir

Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson 2009. Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands. Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita. Náttúrufræðistofnun Íslands NI-09012. Unnið fyrir Orkustofnun.

Helgi Torfason 1985. The Great Geysir. The Geysir Conservation Committe, Reykjavík.

Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson 2002. Verndun jarðminja á Íslandi. Unnið af Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins. NI-02019.

Fleiri myndir

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05

Size

3,0 km2

Flokkun

Virk ferli - Jarðhiti

Jarðsaga

Skeið: Sögulegur tími
Tími: Nútími
Aldur: Um 8.000 ára