Mývatn-Laxá

Svæðið er tilnefnt vegna fugla.

Mörk

Mývatn ásamt nærliggjandi votlendissvæðum, þar á meðal Framengjum og Belgjarskógi. Einnig Laxá að ósi ásamt 200 m verndarjaðri á bökkum beggja vegna.

Lýsing

Mývatn er grunnt og vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Aðrennsli í Mývatn er að mestu um lindir meðfram austurströndinni. Vatnið er afar lífríkt og fóstrar mikið og fjölbreytt fuglalíf, ásamt tjörnum og votlendi umhverfis. Mikið af næringarefnum berst í Laxá sem fellur úr vatninu og er hún því sennilega lífríkasta á landsins. Mikil fjölbreytni í náttúrufari við Mývatn og landslag er sérstætt. Landbúnaður er stundaður á svæðinu, útivist og vaxandi ferðaþjónusta, einnig töluverð netaveiði til skamms tíma og eggjataka. Áratugum saman var kísilgúr unninn úr botni vatnsins en því var hætt 2004. Lykilþættir í vistkerfi Mývatns hafa verið vaktaðir um áratugaskeið.

Forsendur fyrir vali

Mergð vatnafugla verpur á svæðinu og heldur þar til árið um kring. Óvenju margar tegundir ná þar alþjóðlegum verndarviðmiðum: duggönd, straumönd, húsönd, himbrimi og flórgoði. Álft uppfyllir viðmið á fjaðrafellitíma sem og húsönd sem nær þeim árið um kring.

Fuglar - Votlendi og önnur svæði

Nafn Árstími Fjöldi (pör) Ár Hlutfall af íslenskum stofni (%)
Himbrimi (Gavia immer) Varp
13
2016
3,0
Flórgoði (Podiceps auritus) Varp
372
2004
53,0
Álft (Cygnus cygnus) Fellir
350
2005
1,0
Duggönd (Aythya marila) Varp
1182
2006–2015
30,0
Straumönd (Histrionicus histrionicus) Varp
258
2006–2015
6,0
Húsönd (Bucephala islandica) Vetur
1416
2014
71,0

Ógnir

Vaxandi ferðamennska og mikil uppbygging á bökkum vatnsins með tilheyrandi skólpmengun og átroðningi fólks. Útbreiðsla lúpínu og plöntun framandi trjátegunda. Lax- og silungsveiðar, raforkuframleiðsla og iðnaður.

Aðgerðir til verndar

Mývatn og Laxá voru fyrst vernduð með sérlögum árið 1974 og samþykkt sem Ramsar-svæði 1977. Svæðið nýtur nú verndar samkvæmt lögum nr. 97/2004 og er stjórnunar- og verndaráætlun í gildi fyrir svæðið. Draga þarf verulega úr skólpmengun og tryggja að ekki sé byggt of nærri vatns- og árbökkum. Koma þarf í veg fyrir útbreiðslu ágengra tegunda og takmarka betur umferð ferðamanna um svæðið, sérstaklega á viðkvæmum tímum fyrir dýralíf s.s. á varptíma. Tryggja þarf sjálfbæra nýtingu hlunninda og reglubundið eftirlit með iðnaði. 

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Mývatn og Laxá Conservation area
Skútustaðagígar Náttúruvætti
Myvatn-Laxá region Ramsarsamningur

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05 Síðast uppfært: 2020-05-26

Size

153,6 km2
Hlutfall land 64%
Hlutfall ferskvatn 36%