26. nóvember 2014. Ute Stenkewitz: Sníkjudýrasýkingar, líkamsástand og stofnbreytingar rjúpu á Íslandi

26. nóvember 2014. Ute Stenkewitz: Sníkjudýrasýkingar, líkamsástand og stofnbreytingar rjúpu á Íslandi

Ute Stenkewitz doktorsnemi flytur erindið „Sníkjudýrasýkingar, líkamsástand og stofnbreytingar rjúpu á Íslandi“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 26. nóvember kl. 15:15. Erindið verður flutt á ensku.

Rjúpan, Lagopus muta, er vinsælasti veiðifugl Íslendinga og hefðbundinn jólamatur á borðum margra landsmanna. Stofnstærð rjúpunnar breytist á kerfisbundinn máta, stofninn rís og hnígur og hver sveifla tekur um 10 ár. Hvað veldur þessum sveiflum er ekki vitað en mögulegir áhrifavaldar geta tengst fæðuvali, rándýrum eða sjúkdómsvöldum.

Í erindinu fjallar Ute um doktorsverkefni sitt sem hófst árið 2006 en þar er kannað hvernig stærð rjúpnastofnsins tengist heilsufari fuglanna. Meginmarkmið verkefnisins er að lýsa því hvernig sníkjudýrasýkingar í rjúpum tengist aldri fuglanna, líkamsástandi og stofnþéttleika.

Í byrjun október 2006 til 2012 var 632 rjúpum safnað á Norðausturlandi. Þar af var 631 rjúpa (99,8%) sýkt með a.m.k. einni tegund sníkjudýra. Ungfuglar voru almennt með fleiri sníkjudýr en fullorðnir fuglar. Þéttleiki rjúpna að vori á Norðausturlandi endurspeglaði líkamsástand fuglanna haustið á undan. Smittíðni sumra sníkjudýra, sérstaklega hníslasýkingar (Coccidia) hjá ungfuglum, sýndi hliðstæðar breytingar og voru á stofnstærð rjúpu en með um eins og hálfsárs töf.

Þessar niðurstöður, varðandi smit í ungfuglum, vekja athygli, en það eru einmitt kerfisbundnar breytingar á afföllum sértækum fyrir ungfugla sem ráða því að stofninn rís og hnígur. Fram til þessa eru niðurstöðurnar í samræmi við þá tilgátu að sníkjudýr séu einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á stofnstærð rjúpu á Íslandi.

Fyrirlesturinn á YouTube