20. apríl 2005. Ásrún Elmarsdóttir: SKÓGVIST - áhrif skógræktar á gróðurfar

20. apríl 2005. Ásrún Elmarsdóttir: SKÓGVIST - áhrif skógræktar á gróðurfar

Ásrún Elmarsdóttir, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Ísland flytur erindi á Hrafnaþingi 20. apríl 2005.

Skógrækt er ung og vaxandi atvinnugrein hér á landi og áhugamál fjölda fólks. Líklegt er að uppvaxandi skógar muni á næstu áratugum hafa áhrif á lífríki og ásýnd láglendissvæða. Talsverðar umræður og deilur hafa orðið á undanförnum árum um skógrækt í landinu og áhrif hennar. Þar hefur m.a. komið fram að fremur takmarkaðar rannsóknir hafa farið fram á vistfræðilegum áhrifum skógræktar hér á landi.

Rannsóknaverkefnið SKÓGVIST
Til að leita svara við spurningum sem upp hafa komið var árið 2002 hafið rannsóknaverkefnið SKÓGVIST í samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið verkefnisins var að kanna þær breytingar sem verða á lífríki, kolefnishringrás og á jarðvegi mólendis við skógrækt og þegar birkiskógur vex upp við sjálfsáningu. Rannsóknirnar fóru fram á Fljótsdalshéraði á Austurlandi og í Skorradal og Norðurárdal á Vesturlandi. Mælingar voru gerðar í mólendi og í birki-, lerki-, sitkagreni- og stafafuruskógum á mismuandi aldri og framvindustigum. Í erindinu verða í fyrsta sinn kynntar niðurstöður úr gróðurrannsóknum á báðum svæðunum.

Mólendi og ungskógar eru tegundaríkari en gamlir skógar

Niðurstöður sýna að nokkur munur er á gróðurfari mólendis og skóga á milli Austurlands og Vesturlands. Hann má rekja til flórumunar milli þessara landshluta en hefur lítið með skógrækt að gera. Á báðum svæðum komu hins vegar fram miklar og sambærilegar breytingar á gróðurfari sem eru nátengdar aldri og þéttleika skóganna. Tegundir voru flestar í mólendi og ungum skógarteigum (línurit) en þeim fækkaði eftir því sem skógarnir hækkuðu og þéttust. Þar sem skógar vaxa upp láta bersvæðategundir undan síga en skuggaþolnar kjarr- og skógartegundir nema land eða auka hlutdeild sína í gróðri.

Er gróður fjölbreyttari í birkiskógum en barrskógum?

Niðurstöður bæði frá Austurlandi og Vesturlandi benda til að háplönuflóra birkiskóga sé tegundaríkari en flóra sem verður ríkjandi í gömlum teigum af lerki, greni og furu. Í birkiskógum fundust að meðaltali 20 – 30 tegundir í hverjum reit, en í barrlundunum var meðalfjöldi allsstaðar innan við 20 tegundir. Af barrtrjánum var flóran tegundaríkust undir lerkinu. Fátæklegust var flóran í 45 ára gömlum furulundi í Skorradal en þar voru að meðaltali 8 tegundir í hverjum reit (línurit). Þessi munur á flóru birkiskóga og barrskóga stafar líklega einkum af því að barrtegundirnar eru hávaxnari en birkið og verður meiri skuggi undir þeim í þéttum, ógrisjuðum skógum. Barrtegundirnar, einkum greni og fura sem eru sígrænar, hafa því meiri áhrif á umhverfi sitt en birkið.

Þegar skógi er plantað í opið land þarf að ígrunda vel markmið skógræktarinnar. Má þar nefna að ekki fer alltaf saman skógur sem nýta á til útivistar og skógur sem er gróðursettur til framleiðslu á timbri. Huga verður að náttúrufari lands sem taka á til skógræktar, tegundavali og hvernig hirða á um skóginn þegar hann vex upp. Með auknum upplýsingum og skilningi á þeim breytingum sem verða þegar skógur vex upp af skóglausu landi verður hægt að stýra betur framvindu í skógunum. Niðurstöður SKÓGVISTAR-verkefnisins sýna að með grisjun skóganna má hafa mikil áhrif á framvindu og fjölbreytileika botngróðurs þeirra.

Niðurstöður um meðalfjölda háplöntutegunda í reit (± staðalskekkja, n=5) í mólendi (M) og birki- (B), lerki- (L), greni- (G) og furuskógum (F) á Austurlandi og Vesturlandi. Birkiskógar á Austurlandi voru 20 ára gamall sjálfsáinn skógur (B1) og gamalfriðaður skógur frá 1907 (B2), en á Vesturlandi lágvaxnir kjarrskógar í Skorradal og Norðurárdal (B1 og B2) og hávaxnari skógur að Vatnshorni í Skorradal (B3). Lerkiteigar voru 10–50 ára gamlir (L1–L5), greniteigar 9–43 ára (G1–G4) og furuteigar 14 – 45 ára gamlir (F1–F3).