8. nóvember 2023. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Langtímavöktun á lífríki Karupelv-svæðisins á Austur-Grænlandi

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 8. nóvember 2023 kl. 15:15 um Karupelv Valley verkefnið sem er langtímavöktun á lífríki Karupelvsvæðisins á Austur-Grænlandi, með áherslu á fæðuvef sem stjórnast af stofnsveiflum læmingja. Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar Íslands á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

Karupelv Valley verkefnið á Austur-Grænlandi er langtíma vöktunarverkefni sem hófst árið 1988, undir stjórn franska líffræðingsins dr. Benoit Sittler. Verkefnið er hýst af Háskólanum í Freiburg í Þýskalandi og er hluti franska verkefnaklasans GREA þar sem áherslan er á að vakta og skýra sveiflur í læmingjastofnum á norðurheimskautasvæðum.

Síðastliðið sumar fór Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands, með í árlegan leiðangur til Karupelvdals. Með í för var einnig dr. Sittler, sem enn tekur fullan þátt í vettvangsferðum á svæðið, þótt hann sé á áttræðisaldri. Hefðbundin verkefni þessa leiðangurs felast í að ganga snið og leita að hreiðrum læmingja og vaðfugla (á þessu svæði eru sanderlur algengastar). Varpfuglum er náð og þeir litmerktir, mælitæki sett í hreiður og egg flotprófuð en hreiðrin eru svo heimsótt áfram til að fylgjast með varpárangri. Afræningjar (tófur, kjóar og snæuglur) sem sjást eru skráð og kannað hvort þeir séu að tímgast, sem gerist nær eingöngu þegar læmingjar eru í nægilegum fjölda. Ýmis önnur verkefni eru unnin samhliða, til dæmis að keyra tæki sem mælir veðurfar og mengun yfir sumarið. Tilraun sem hefur staðið yfir síðan 2016 felst í að setja út 200 gervihreiður með fjórum kornhænueggjum á tvö stór svæði og heimsækja þau þrisvar á tveggja sólarhringa fresti til að meta afrán. Settur var upp sjálfvirkur myndavélabúnaður á níu svæðum fyrir rannsókn á hreysiköttum. Einnig voru settar út sjálfvirkar myndavélar á nokkrum stöðum og saursýnum úr rándýrum og ælum úr snæuglum var safnað. Varpsvæði gæsa (helsingjar), máfa (hvítmáfar) og kjóa (fjallkjóar og kjóar) voru heimsótt til að leggja mat á fjölda og mögulegt varp. Sauðnaut voru ekki skráð en þau sáust oft í litlum hjörðum, sérstaklega eftir því sem snjóa leysti. Nokkrum sinnum sást til hvítabjarna úti á firðinum, sem var ísi lagður framyfir miðjan júlí og var það skráð. 

Meginmarkmiðið með ferð Esterar var að finna tófur, ná þeim í gildrur og setja á þær senditæki til að fylgjast með ferðum þeirra. Þegar snið voru gengin var leitað með sjónauka hvort refir sæjust en einnig var farið á greni til að athuga hvort þau væru í ábúð. Þess ber að geta að refagrenin voru í um 10–20km frá búðunum og aðeins hægt að fara á þrjú þeirra í þær þrjár vikur sem Ester dvaldi á svæðinu. Í lok júlí urðu stóru árnar til austurs og vesturs loks færar og þá fyrst var hægt að heimsækja tvö síðustu refagrenin til að kanna ábúð þeirra. Þetta árið voru læmingjar í lágmarki og engin tímgun var staðfest hjá afræningjum þeirra. Þó sáust refir af og til og náðust þrjú dýr í gildrur og fengu á sig senditæki.