3. apríl 2024. Gunnar Þór Hallgrímsson: Uglur á Íslandi

Gunnar Þór Hallgrímsson prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands flytur erindið „Uglur á Íslandi“ á Hrafnaþingi 3. apríl 2024 kl. 15:15.

Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar Íslands á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

Í erindinu fjallar Gunnar um rannsóknir sínar og samstarfsfólks á uglum á Íslandi sem hófust árið 2017. Greint verður frá landnámi, mati á fjölda og útbreiðslu eyruglunnar og greiningum á fæðuvali. Þá verður einnig sagt notkun senditækja við að meta stærð og skörun óðala og hvernig uglurnar nota þau búsvæði sem eru í boði. Branduglum verða einnig gerð skil og farið sérstaklega yfir niðurstöður merkinga með gps-senditækjum. 

Farið verður yfir hvernig útbreiðsla gps-merktra fugla rímar við þekkta útbreiðslu tegundarinnar hérlendis og einnig sagt frá stórmerkilegum ferðalögum branduglunnar. Einnig verða gefin dæmi um búsvæðaval og fæðu brandugla á Íslandi. Í lok erindis mun Gunnar fara yfir nokkur atriði sem snúa að umgengni mannfólks við uglur og loks hver séu næstu skref í uglurannsóknunum.