14. febrúar 2024. Sverrir Thorstensen: Fuglamerkingar í 45 ár

Sverrir Thorstensen fuglamerkingamaður flytur erindið „Fuglamerkingar í 45 ár“ á Hrafnaþingi 14. febrúar 2024 kl. 15:15.

Erindið verður flutt í fundaraðstöðu starfsstöðvar Náttúrufræðistofnunar Íslands að Borgum við Norðurslóð, Akureyri. 

Sverrir Thorstensen hefur merkt tæplega 110.000 fugla af 74 tegundum. Í erindinu mun Sverrir fjalla sérstaklega um merkingar og endurheimtur á nokkrum tegundum. Þar má nefna snjótittling, skógarþröst og auðnutittling sem samtals eru með um 66.000 merkingar. Einnig verður farið yfir ýmsar merkingar á fuglum í Flatey á Breiðafirði. Þar hefur Sverrir, ásamt Ævari Petersen fuglafræðingi, fylgst með fuglalífi í tugi ára og meðal annars skoðað hvert fuglar fara í fæðuleit. Þéttleiki nokkurra tegunda er mikill í Flatey og endurheimtur sína að fuglarnir leita á sama stað ár eftir ár til að verpa. Í þessu sambandi má nefna hrossagauk og óðinshana. Þá hefur Sverrir merkt álftir í 40 ár og þær fá einnig umfjöllun.