Mat á verndargildi

Aðeins frummat á verndargildi vistgerða hefur farið fram en í vinnu við framkvæmdaáætlun B-hluta náttúruminjaskrár, þar sem skilgreina á verndarsvæði, verður verndargildi vistgerðanna skilgreint frekar.

Við frummat á verndargildi hverrar vistgerðar var beitt svipuðum aðferðum og notaðar voru við fyrstu vistgerðarannsóknirnar á miðhálendinu og gefin voru út í skýrslu Náttúrfræðistofnunar NÍ-09008, Vistgerðir á miðhálendi Íslands: flokkun, lýsing og verndargildi. Verndarviðmið voru þó mun færri, eða fjögur, og einungis notuð þau sem hægt var að mæla eða leggja mat á með sæmilegri nákvæmni en þau voru; fágæti vistgerðar (e. rarity), tegundaauðgi (e. species richness) (hér notað sem staðgöngumat fyrir fjölbreytni), gróska (e. productivity) sem er mælikvarði á framleiðni og kolefnisforði í jarðvegi (e. soil carbon stock).

Gefnar voru fjórar einkunnir fyrir hvert viðmið fyrir hverja vistgerð; lágt verndargildi (1), miðlungs (3), hátt (6) og mjög hátt (10). Samanlögð einkunn fyrir öll verndarviðmið ákvarðar innbyrðis röðun vistgerða og hlutfallslegt verndargildi þeirra. Ekki var unnt að meta alla þessa þætti í öllum meginflokkunum þremur, þ.e. á landi í ferskvatni og í fjöru. Verndargildi vistgerða er því ekki sambærilegt nema innan flokka. Verndargildi vistgerðar á jarðhitasvæðum er auk þess ekki sambærilegt við aðrar landvistgerðir þar sem aðferðir voru ólíkar, t.d. var ekki mögulegt að meta grósku né magn kolefnis í jarðvegi á jarðhitasvæðum.

Verndarviðmið Landvistgerðir aðrar en jarðhitavistgerðir Jarðhitavistgerðir Ferskvatnsvistgerðir Fjöruvistgerðir
Fágæti Reiknað út frá flatarmáli vistgerðar og hversu dreifð hún er Reiknað út frá flatarmáli vistgerðar á þeim svæðum sem rannsökuð voru Reiknað út frá flatarmáli  stöðuvatna (km2) og heildarlengd (km) straumvatna Reiknað út frá flatarmáli vistgerðar og hversu dreifð hún er
Tegundaauðgi Reiknuð út frá fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna Reiknuð út frá fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna Reiknuð út frá fjölda tegunda æðplanta, kransþörunga og mosa, annars vegar í vistgerðum stöðuvatna og hins vegar straumvatna Reiknuð út frá fjölda tegunda (þörungar, marhálmur, liðormar, sniglar o.fl.) Einnig var tekið tillit til fuglalífs.
Gróska Metið sem margfeldi af hæð gróðurs og þekju æðplantna Ekki metið Metið út frá gróðurþekju Ekki metið
Kolefnisforði Kolefnisforði í jarðvegi reiknaður sem margfeldi af C% og jarðvegsdýpt Ekki metið Ekki metið Ekki metið

Verndargildi landvistgerða utan jarðhitasvæða

Fágæti landvistgerða var metið með því að taka mið bæði af heildarflatarmáli vistgerðar og hversu dreifð hún er. Verndargildi var reiknað út frá fjölda reita (10x10 km) þar sem vistgerð fannst og heildarflatarmáls vistgerðar.

Flatarmál km2

0-100

>100–1.000

>1.000-10.000

>10.000

Fjöldi reita m. tegund

0-300

100-600

200-900

300-1.200

Verndargildi

10

6

3

1

Þannig fengu þær vistgerðir sem voru minnstar að flatarmáli (0-100 km2) og jafnframt fundust í fáum reitum (0-300) verndargildið 10 o.s.frv.

Tegundaauðgi. Fundinn var meðalfjöldi tegunda æðplantna, mosa og fléttna fyrir hverja vistgerð og fyrir hvern tegundahóp reiknuð hlutfallsleg (%) tegundaauðgi miðað við tegundaríkustu vistgerðina. Þá var fundin meðaltegundaauðgi í hverri vistgerð fyrir alla tegundahópana þrjá æðplöntur, mosa og fléttur. Verndargildi var raðað þannig eftir hlutfalli tegunda; 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Gróska var reiknuð út fyrir hverja vistgerð sem margfeldi af meðalgróðurhæð (cm) og meðalþekju (%) æðplanta. Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi tölum; 1 (≤100), 3 (>100-500), 6 (500-1600) og 10 (>1600).

Kolefnisforði í jarðvegi var metin með því að margfalda saman meðaltal kolefnismagns í jarðvegi (% þurrefnis í efstu 10 cm jarðvegs) og meðaljarðvegsdýpt í hverri vistgerð. Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi tölum; 1 (≤100), 3 (>100-500), 6 (>500-1000) og 10 (>1000).

Verndargildi jarðhitavistgerða

Verndargildi jarðhitavistgerðanna fjögurra var metið samkvæmt tveimur viðmiðum, þ.e. fágæti og tegundaauðgi.

Fágæti var metið út frá flatarmáli vistgerða á þeim svæðum þar sem mælingar voru gerðar. Reiknað var út hlutfall vistgerðar út frá heildarflatarmáli vistgerðanna fjögurra. Verndargildi var metið samkvæmt eftirfarandi; 6 (<50%) og 10 (≥50%).

Tegundaauðgi var metin út frá tegundafjölda æðplantna, mosa og fléttna í hverri vistgerð. Reiknað var út hlutfall tegunda í hverjum hópi út frá heildarfjölda tegunda innan hvers og eins. Verdnargildi  var metið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli; 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (≥75%).

Verndargildi vatnavistgerða

Fágæti var reiknað út sem sem hlutfall hverrar vistgerðar af heildarflatarmáli stöðuvatna (km2) eða heildarlengd (km) straumvatna samkvæmt eftirfarandi; 10 (≤5% af heildar-flatarmáli eða heildarlengd), 6 (>5-10%), 3 (>10-20%) og 1 (>20%).

Tegundaauðgi í stöðuvötnum var metin sem hlutfall af tegundaríkustu vistgerðinni (æðplöntur, kransþörungar og mosar). Það sama var gert fyrir straumvötn þar sem þessar upplýsingar lágu fyrir. Ekki var unnt að meta tegundauðgi í öllum vistgerðum vegna skorts á upplýsingum. Verndargildi var metið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli: 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Gróska í ferskvatnsvistgerðum var metin sem hlutfall af þeirri vistgerð þar sem gróðuþekja var mest, annars vegar í stöðuvötnum (gróðurþekja 55%) og hins vegar í straumvötnum (gróðurþekja 51%). Ekki var unnt að meta grósku í öllum vistgerðum vegna skorts á upplýsingum. Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli; 1 (≤25% af hæstu gróðurþekju), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Verndargildi fjöruvistgerða

Fágæti fjöruvistgerða var metið með því að taka mið bæði af heildarflatarmáli og hversu dreifð vistgerðin er. Verndargildi var reiknað út frá fjölda reita (10x10 km) þar sem vistgerð fannst og heildarflatarmáls vistgerðar.

Flatarmál km2

0-10

0,1–100

1-1.000

10-1000

Fjöldi reita m. tegund

0-20

>20-80

>80-140

>140-180

Flatarmál km2 - Sérstæð fjörusvæði

0-30.000

>30.000-100.000

>100.000-300.000

>300.000

Fjöldi reita m. tegund - Sérstæð fjörusvæði

0-12

>12-30

>30-50

>50-70

Verndargildi

10

6

3

1

Sérstæð fjörusvæði (e. habitat complexes) voru metin sérstaklega vegna þess að þau geta innihaldið margar vistgerðir og eru því á miklu stærri kvarða en aðrar vistgerðir.

Tegundaauðgi í fjöruvistgerðum var metið sem hlutfall af tegundaríkustu vistgerðinni (þörungar, marhálmur, liðormar, sniglar o.fl.). Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli; 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).