Landnám plantna og og gróðurframvinda í Surtsey

Í nýútkomnu tölublaði Náttúrufræðingsins er birt ítarleg grein um landnám plantna og framvindu gróðurs í Surtsey síðastliðin 60 ár, eða frá því eyjan varð til. 

Allt frá því að Surtsey hóf að myndast hafa vísindamenn fylgst með myndun og mótun eyjarinnar og því hvernig lífverur nema land á eynni og vistkerfi mótast. Í greininni er fjallað um landnám æðplantna í Surtsey og framvindu gróðurs og dýralífs. Eftirfarandi spurningar eru settar fram: Hverjir voru fyrstu landnemar og hvers vegna? Hvað hefur einkennt landnám seinni ára? Hafa fuglar og jafnvel selir haft áhrif á landnám og framvindu? Hvernig horfir um framtíð Surtseyjar?

Helstu niðurstöður eru þær að strandplöntur námu fyrstar æðplantna land í Surtsey. Fjörukál fannst þar á ströndinni 1965 og í kjölfarið fylgdu melgresi, fjöruarfi og blálilja. Fyrstu einstaklingar þessara tegunda fundust einnig upp af sendinni strönd á norðurtanga eyjarinnar og leyndi sér ekki að fræ hafði borist sjóleiðina. Á fyrsta áratugnum fundust alls 12 tegundir æðplantna í Surtsey. 

Fyrstu hreiður fugla fundust árið 1970 þegar fýll og teista tóku að verpa í sjávarhömrum. Nokkrum árum síðar hófu svartbakur og silfurmáfur að verpa á suðurhluta eyjarinnar en straumhvörf urðu þegar sílamáfur bættist í hópinn árið 1985. Á árunum 1985–1994 myndaðist þétt máfavarp á afmörkuðu svæði í hrauninu á suðurhluta eyjarinnar og kom fljótt í ljós að fuglarnir höfðu afgerandi áhrif á framvindu gróðurs og dýralífs á eynni og færðist mikill kraftur í landnám æðplantna.

Á undanförnum árum hefur vaknað grunur um að útselur hafi átt þátt í þéttingu gróðurs á norðurtanga eyjarinnar, einkum á síðasta áratug. Líkt og sjófuglar flytja selir næringarefni frá sjó til lands, einkum þar sem dýrin dveljast í látrum eða hópa sig á hvíldarsvæðum. 

Á síðustu árum hefur hægt á landnámi en fuglar bera áfram nýjar tegundir til eyjarinnar. Árið 2021 höfðu alls fundist 78 tegundir æðplantna. Af þeim voru lifandi einstaklingar af 66 tegundum og liðlega 40 tegundir höfðu myndað lífvænlega stofna.

Varðandi framtíð gróðurs í Surtsey er líklegt að nýjar tegundir æðplantna finnist á næstu áratugum og að eitthvað fjölgi í flóru eyjarinnar áður en halla tekur að marki undan fæti. Rof eyjarinnar mun halda áfram og búsvæði hverfa. Gróður þéttist en tegundum fækkar. Miklar líkur eru á að lunda muni stórfjölga í eynni og að hann verði þar einkennisfugl þegar tímar líða. Ásamt fýl, máfum og fleiri sjófuglum má búast við að hann viðhaldi þar gróskumiklu graslendi líkt og í öðrum úteyjum Vestmannaeyjaklasans. Þær sýna glöggt hvað bíður Surtseyjar og lífríkis hennar.

Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon, Pawel Wasowicz, Járngerður Grétarsdóttir, Olga Kolbrún Vilmundardóttir og Bjarni Diðrik Sigurðsson 2023. Surtsey 60 ára: Landnám plantna og framvinda. Náttúrufræðingurinn 93(1–2): 6–26.