Áhættumat fyrir sjófugla gagnvart plastmengun í hafi

Í júlí síðastliðnum birtist grein í tímaritinu Nature Communications sem fjallar um rannsókn þar sem gögn um útbreiðslu plasts í sjó eru borin saman við gögn um ferðir ríflega sjö þúsund fugla af 77 tegundum á heimsvísu, í þeim tilgangi að meta hættuna á að fuglarnir verði fyrir áhrifum af plastmengun.

Plastmengun er dreifð um heimshöfin og mikilvægt er fyrir rannsóknir og mótvægisaðgerðir að auka þekkingu á því hvar lífverur sjávar eru í mestri hættu á að lenda í plasti. Sjófuglum, til dæmis pípunefjum, stafar mikil ógn af plasti þar sem þeir greina ekki á milli fæðu og plasts, auk þess sem þeim er hætt við að flækjast í plastinu. Fuglarnir fljúga langar vegalengdir við fæðuleit og við farflug en landfræðileg skörun milli útbreiðslu plasts og pípunefja er hins vegar lítið þekkt.

Til að mæla staðsetningu fuglanna voru notuð gögn úr svokölluðum dægurritum sem settir voru á þá en með rannsókninni var markmiðið að geta sagt um hvar fuglar eru í mestri hættu á að lenda í plasti. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að helstu áhættusvæðin séu í Miðjarðarhafi, Svartahafi, Norðaustur-Kyrrahafi, Norðvestur-Kyrrahafi, Suður-Atlantshafi og Suðvestur-Indlandshafi. Áhættan er mjög breytileg milli tegunda og stofna, og eins hvort um varptíma er að ræða eða tímabil utan varptíma. Fyrir utan Miðjarðarhaf og Svartahaf er áhættan mest í úthöfum og efnahagslögsögu Bandaríkjanna, Japans og Bretlands. Fuglarnir voru almennt líklegri til að verða fyrir áhrifum plasts utan efnahagslögsögu landsins þar sem þeir verpa. Í greininni er lögð fram forgangsröðun í verndun og rannsóknum og lögð áhersla á að alþjóðlegt samstarf er lykillin að því að takast á við áhrif plastmengunar á víðförlar tegundir.

Greinin er afrakstur alþjóðlegs samstarfs rúmlega 200 vísindamanna og er öllum opin á netinu: 

Clark, B.L., A.P.B. Carneiro, E.J. Pearmain, ... I.A. Sigurðsson o.fl 2023. Global assessment of marine plastic exposure risk for oceanic birds. Nature Communications 14: 3665. https://doi.org/10.1038/s41467-023-38900-z