Minningarkveðja

Sunnudaginn 9. júlí síðastliðinn varð sá hörmulegi atburður að flugvél með tveimur starfsmönnum Náttúrustofu Austurlands brotlenti og fórust allir um borð. Þau sem létust voru Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur og Fríða Jóhannesdóttir spendýrafræðingur, ásamt Kristjáni Orra Magnússyni flugmanni. 

Skarphéðinn lauk BS-námi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1978 og starfaði bæði sem leiðsögumaður og menntaskólakennari um árabil. Snemma helgaði hann sig rannsóknum á hreindýrum og vann að þeim alla sína starfsævi eða frá því á áttunda áratug síðustu aldar og fram á dánardag. Það var í raun einungis formsatriði fyrir hann að skrifa upp meistaraprófsritgerð sína um hreindýr sem hann varði árið 2018. Í gegnum tíðina vann Skarphéðinn mikið með starfsfólki Náttúrufræðistofnunar Íslands að ýmsum málefnum enda fróður maður og áhugasamur um náttúru og lífríki Austurlands auk þess að vera afburðagóður ljósmyndari og ötull náttúruverndarsinni. Hann sat meðal annars í hreindýraráði og í nefnd um rammaáætlun ásamt fleiri faghópum. Án þess að á nokkurn sé hallað má segja að enginn hafi haft eins góða yfirsýn yfir íslenska hreindýrastofninn og Skarphéðinn. Hann var einmitt að telja hreindýr úr lofti þegar slysið varð, ásamt Fríðu, sem hafði nýlega hafið störf á Náttúrustofu Austurlands. 

Fríða lauk námi í líffræði við Háskóla Íslands árið 2005 en fór svo utan til frekara náms og starfa, meðal annars til Bretlands þar sem hún lauk prófgráðu í vistfræði og umhverfisstjórnun og Bandaríkjanna þar sem hún lauk doktorsprófi í vist- og þróunarlíffræði við Cornell-háskóla. Fríða starfaði sem nýdoktor og kennari við Háskólann í Plymouth í Bandaríkjunum og síðar við Háskólann í Oulu í Finnlandi og tók jafnframt þátt í margvíslegum verkefnum í fleiri löndum á sviði spendýrarannsókna. Fríða ákvað að snúa heim til Íslands og hóf störf hjá Náttúrustofu Austurlands í september 2022 þar sem hún naut leiðsagnar Skarphéðins við hreindýrarannsóknirnar ásamt því sem hún undirbjó fyrirhugaða vöktun á hagamúsum í haust, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Með þeim Skarphéðni og Fríðu eru nú horfnir á braut mikilvægir og nánir samstarfsaðilar og vinir sem við söknum mjög. Andlát þeirra er hræðilegt áfall fyrir samstarfsfólk fyrir austan, ástvini og aðra aðstandendur. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til þeirra allra, megi þau öðlast styrk til að takast á við sorgina og missinn.

Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands