Óvenju fá frjókorn í apríl og maí

Frjómælingar hafa staðið yfir á Akureyri og í Garðabæ síðan í lok mars. Á báðum stöðum var óvenju lítið af frjókornum í lofti í apríl og maí.

Á Akureyri hófust frjómælingar 31. mars og komu fyrstu þekktu frjókornin í frjógildruna daginn eftir og var þar um að ræða lyng- og víðifrjó. Heildarfjöldi frjókorna í apríl var 16 frjó/m3 sem er vel undir meðaltali (61 frjó/m3) og voru það aðallega lyngfrjó sem mældust. Í maí fjölgaði frjókornum og voru þau samfellt í lofti allan mánuðinn þó þau væru enn miklu færri en á sama tíma undanfarin ár. Alls mældust 185 frjó/m3 (meðaltal er 534 frjó/m3) en um helmingur þeirra var í lofti dagana 18.–20. maí. Mest var um víðifrjó (55%), birkifrjó (27%), lyngfrjó (7%) og asparfrjó (6%).

Í Garðabæ hófust mælingar 23. mars og kom fyrsta frjókornið í gildruna 27. mars. Einungis fimm frjókorn mældust í marsmánuði, flest ógreinanleg nema eitt furufrjó. Í apríl var fjöldi frjókorna 28 frjó/m3, sem er vel undir meðallagi (50 frjó/m3), mest mældist af lyng- og víðifrjóum. Í maí mældust einungis 45 frjó/m3 en aldrei áður hafa svo fá frjókorn mælst í maí (meðaltal 295 frjó/m3). Mest var um birkifrjó (40%), lyngfrjó (27%), víðifrjó (18%) og asparfrjó (11%).

Á báðum mælingastöðum mældist fyrsta birkifrjóið 15. maí. Gera má ráð fyrir að frjótími birkis teigi sig inn í júní ef veðurskilyrði verða hagstæð.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2023 (pdf)