Jöklar á Tröllaskaga hafa rýrnað um allt að þriðjung síðustu 100 ár

Það er vel þekkt að jöklar á Íslandi hafa rýrnað umtalsvert frá lokum kuldatímabilsins 1450–1900 sem oft er kallað litla ísöld. Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóli Íslands tóku nýlega þátt rannsókn, stýrt af hópi vísindamanna frá háskólanum í Madríd, sem varpar ljósi á jöklabreytingar á Tröllaskaga frá lokum litlu ísaldar og tengsl breytinganna við loftslag.

Í rannsókninni voru hop og rýrnun daljöklanna Gljúfurárjökuls og Tungnahryggjökuls eystri og vestari kortlögð með vettvangsvinnu og aðstoð loftmynda frá árunum 1946, 1985, 1994, 2000 og 2005. Einnig voru veðurgögn frá Veðurstofu Íslands notuð ásamt einföldum reiknilíkönum til að meta breytingar á hita, úrkomu og jafnvægislínu á jöklunum.

Niðurstöður sýna að afkoma jökla á Tröllaskaga (sem ekki eru að hluta eða talsverðu leyti huldir urð sem oft er raunin) er mjög háð breytingum á sumarhita og vetrarúrkomu. Á tímabilinu 1900–2014 minnkaði flatarmál jöklanna um fjórðung en rúmmálstap þeirra var ívið meira. Meginorsök fyrir rýrnun jöklanna er tvíþætt, annars vegar aukning á meðalárshita um 1,9°C og hins vegar aukning á meðalsumarhita um 1,5°C frá lokum litlu ísaldar. Á sama tíma jókst vetrarúrkoma (snjókoma á jöklunum) um 30–45%. Aukning vetrarúrkomu var jöklunum mjög til góðs og leiddi til minni rýrnunar en hlýnunin ein og sér gaf tilefni til.

Tíðarfar á litlu ísöld var jöklum almennt hagfellt en þá gengu jöklar fram á Tröllaskaga, Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull eystri og vestari og náðu þeir 1–1,7 km lengra niður í dalina en þeir gera í dag. Um 1925 urðu snögg umskipti og hlýindi fram yfir miðja 20. öld komu sérlega illa við jöklana sem þá voru að ná jafnvægi við mun svalara loftslag litlu ísaldar. Um 60–80% af rýrnun jöklanna þriggja átti sér stað á aðeins nokkrum áratugum á fyrri hluta 20. aldar.

Upp úr 1960 og fram til síðustu aldamóta varð tíðarfar aftur heldur svalara og vetrarúrkoma í rúmu meðallagi. Þá hægði á hörfun jöklanna og stóðu þeir ýmist í stað eða stækkuðu á níunda og tíunda áratug 20. aldar. Það sem af er 21. öldinni hefur tíðarfar verið jöklunum óhagstætt flest ár, þó er hörfunarhraði jöklanna enn sem komið er nokkuð minni en á fyrri hluta 20. aldar. Sennilega skýrist það af nokkuð mikilli vetrarúrkomu sem vinnur á móti sumarhlýindum og því að jökulsporðarnir höfðu þegar hörfað talsvert upp í dalina frá hámarksstöðum litlu ísaldar áður en hlýindi 21. aldarinnar hófust. 

Miðað við þróunina frá lokum litlu ísaldar og núverandi veðurfar munu jöklarnir rýrna áfram á komandi árum. Hins vegar má búast við jákvæðri afkomu jöklanna stöku ár, þar sem einungis þarf fremur lítil neikvæð frávik frá meðalsumarhita ásamt vetrarúrkomu um eða yfir meðallagi til að gera afkomu þeirra jákvæða á ný.

Nánari upplýsingar um jökla á Tröllaskaga

Ítarlegri upplýsingar um rannsóknina birtust nýlega í vísindaritinu The Holocene