Hvers á birkið að gjalda?

Um er að ræða tegund sem nefnd hefur verið birkiþéla (Scolioneura betuleti). Hún er þekktur skaðvaldur á birkitegundum í Evrópu. Líkast til hefur blaðvespa þessi borist til landsins á síðustu árum. Hún gæti þó hafa dulist hér í nokkurn tíma því ummerkin á birkinu eru áþekk ummerkjum eftir atgang birkikembunnar, þ.e. sölnuð laufblöð sem lirfur í uppvexti hafa holað að innan. Í sumar hefur tegundin verið staðfest á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þess má vænta að birkið kunni að líða fyrir þessar auknu álögur. Til þessa hafa trén náð að bæta skaðann sem birkikemban hefur valdið snemmsumars en nú tekur birkiþélan við keflinu og leggst á nýju blöðin síðsumar.

Gera má ráð fyrir að þessi nýi landnemi hafi borist til landsins með óvarlegum  innflutningi trjáa. Er þetta gott dæmi um þá hættu sem slíkur innflutningur getur haft í för með sér fyrir íslensk vistkerfi.

Ítarlegan fróðleik um birkiþélu má lesa á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.