Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi

Meginmarkmið hvað fugla varðar er að (1) fá yfirsýn yfir dreifingu og stofnstærð fugla á landsvísu, (2) skilgreina verndarsvæði og lýsa fuglalífi þeirra á magnbundinn hátt og (3) leggja grunn að reglulegri vöktun svæðanna og viðkomandi fuglastofna. Bent er á svæði sem teljast alþjóðlega mikilvæg fyrir þær fuglategundir sem dvelja hér að staðaldri (81 tegund) og birt er nýtt mat á öllum íslenskum fuglastofnum. Munar þar mest um nýtt mat á stofnum vaðfugla og spörfugla. Verkefnið var unnið í samstarfi við fjölda einstaklinga og stofnanir á sviði náttúrufræða.

Misjafnt er hversu mörg mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir hverja tegund, en langflest eru þau hjá fýl eða 38. Alls er skilgreint 121 alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði og eru flest þeirra (70) sjófuglabyggðir og innan þeirra verpur meirihluti af stofnum 15 af 24 íslenskum sjófuglategundum. Um 25 svæði eru fyrst og fremst fjörur og aðliggjandi grunnsævi. Þau gegna þýðingarmiklu hlutverki fyrir farfugla eða þá sem vetrardvalarstaðir. Ríflega 30 svæði eru inn til landsins og einkennast þau flest af lífríku mýrlendi, vötnum og ám. Einnig eru flest þeirra mikilvæg sem varpsvæði en einnig koma ýmsir vatnafuglar þar við vor og haust og sumir fella þar fjaðrir. Nokkur lindasvæði eru jafnframt mikilvægir vetrardvalarstaðir.  

Ritið Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi (pdf). Tenging við kortasjá verður virk síðar í sumar.

Prentað eintak af ritinu verður hægt að nálgast í afgreiðslu stofnunarinnar í ágúst.