Vistgerðir á Íslandi: útgáfa og málþing

Lýsing og kortlagning vistgerða á landinu er umfangsmesta verkefni sem stofnunin hefur ráðist í en grunnur að því var lagður árið 1999 með rannsóknum á vistgerðum miðhálendisins. Vistgerðum á öðrum hálendissvæðum, láglendi, í ferskvatni og fjöru var lýst og þær kortlagðar á árunum 2012–2016. Mikil vettvangsvinna og úrvinnsla liggur að baki niðurstöðum og byggðir hafa verið upp gagnagrunnar er nýtast munu til framtíðar. Verkefnið var unnið í samstarfi við fjölda einstaklinga og stofnanir á sviði náttúrufræða.

Alls er 105 vistgerðum lýst en af þeim eru 64 á landi, 17 í ám og vötnum og 24 í fjörum. Með útgáfunni leggur Náttúrufræðistofnun Íslands fram flokkun vistgerða sem á sér fyrirmynd í samræmdri og viðurkenndri flokkun vistgerða í Evrópu. Náttúra Íslands er um margt frábrugðin náttúru annarra Evrópulanda, hvað varðar jarðfræði og lífríki, og því var ekki unnt að taka beint upp flokkunarkerfi sem þróuð hafa verið í Evrópu. Mörgum vistgerðum er lýst sem ekki hafa verið skráðar áður og eru einstakar fyrir Ísland.

Í Vistgerðum á Íslandi er hverri vistgerð lýst í hnotskurn á staðreyndasíðum sem eru lykill fyrir leika og lærða að vistgerðunum, einkennum þeirra, útbreiðslu og verndargildi. Jafnframt eru staðreyndasíðurnar mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að greiningu vistgerða og kortlagningu á vettvangi. Vistgerðakortin veita hagnýtar upplýsingar um náttúru landsins sem munu nýtast stjórnvöldum, sveitarfélögum, atvinnulífi og almenningi. Þau munu leggja mikilvægan grunn fyrir upplýstar ákvarðanir um alla landnotkun og áætlanagerð, s.s. vegna náttúruverndar, skipulagsmála, mats á umhverfisáhrifum framkvæmda og náttúruvöktunar. Þau gera Íslandi jafnframt kleift að sinna betur alþjóðlegum skyldum sínum á sviði náttúruverndarmála.

Gerð verður grein fyrir Vistgerðum á Íslandi á málþingi í dag, 17. mars kl. 13 á Grand Hótel.

Ritið Vistgerðir á Íslandi og tenging við vistgerðakort í kortasjá.