Hálfdán Björnsson á Kvískerjum látinn

Hálfdán var þjóðkunnur fyrir þekkingu sína á íslenskri náttúru og fræðistörf á því sviði. Það er sama hvar borið er niður, ávallt var grunnt á þekkingu á tegundunum og lífsháttum þeirra, enn fremur á skilninginn á samspili þeirra. Hann þekkti plönturnar, fuglana og smádýrin, að sjávardýrunum ógleymdum. Orðsporið um fræðimanninn á einum einangraðasta bæ á Íslandi barst snemma út fyrir landsteina og naut hann virðingar í fræðaheimi nágrannalandanna.

Hálfdán komst ungur í samband við sérfræðinga Náttúrugripasafnsins, síðar Náttúrufræðistofnun Íslands, og átti þar í langan tíma gjöfult samstarf við Finn Guðmundsson, fuglafræðing, í fuglarannsóknum og Eyþór Einarsson, grasafræðing, í grasafræðirannsóknum, m.a. í Esjufjöllum í Breiðamerkurjökli. Hálfdán safnaði náttúrugripum og átti mikinn þátt í að byggja upp vísindasöfn stofnunarinnar, ekki síst fuglasafnið, sem Finnur lagði ríka áherslu á. Hálfdán rannsakaði fuglalíf Öræfanna og birti um það gagnmerka grein í Náttúrufræðingnum. Flækingsfuglar voru hans yndi og voru tegundirnar ófáar sem hann fann nýjar fyrir landið. Hálfdán stundaði fuglamerkingar í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands í tæpa þrjá aldarfjórðunga, lengur en allir aðrir, merkti fyrstu fuglana árið 1942. Hann varð síðar virkur þátttakandi í rjúpnarannsóknum stofnunarinnar í samvinnu við Ólaf K. Nielsen, fuglafræðing.

Þrátt fyrir knappan aðbúnað kom Hálfdán sér upp viðamiklu safni smádýra og hafði um það gott samstarf við erlenda skordýrafræðinga, en í þeim fræðum var hann einna fremstur Íslendinga. Hann var heillaður af heimi smádýranna sem fáir aðrir þekktu. Náin samvinna tókst með Hálfdáni og Erling Ólafssyni, skordýrafræðingi, á þessu sviði. Náði hún hámarki þegar byrjað var að vakta fiðrildi á tveim stöðum á landinu árið 1995 en Kvísker var annar þeirra staða. Kvísker var sjálfgefinn vöktunarstaður því þar var aðstaða góð, þar var áhugi og kunnátta. Þar til gerðum gildrum var komið upp og sinnti Hálfdán þeim af kostgæfni um fimmtán ára skeið þrjátíu vikur á ári, greindi aflann og taldi af mikilli fagmennsku allt þar til brattinn fór að aukast á lífsins vegi.

Hálfdán kom sér upp dýrmætu safni náttúrugripa sem hann fól Náttúrufræðistofnun Íslands að taka til varðveislu að sér gengnum og staðfesti hann það í erfðaskrá. Áður hafði hann gefið í skyn þann vilja sinn, ef bara það yrði ekki íþyngjandi fyrir stofnunina að taka. Ekki vildi hann auka byrði nokkurs manns. Þannig var Hálfdán.

Nafn Hálfdáns kemur víða við sögu í fræðigreinum, ýmist sem aðalhöfundur, meðhöfundur eða í þakkarorðum. Er það á ýmsum ólíkum sviðum, fuglafræði, grasafræði og smádýrafræði. Verk hans eru ómetanleg, sömuleiðis aðkoma hans að verkum fjölmargra náttúrufræðinga.

Náttúrufræðistofnun heiðraði Hálfdán á ársfundi sínum 2009 fyrir ómetanlegt framlag til rannsókna á lífríki Íslands og dyggan stuðning við starfsemi stofnunarinnar.

Náttúrufræðistofnun Íslands stendur í mikilli þakkarskuld við Hálfdán og systkini hans sem eru nú öll látin. Hálfdáns verður minnst til eilífðar í sögu stofnunarinnar enda kemur nafn hans víða fyrir á safnhirslum og skrám.