Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar rís á Breiðdalsvík

Náttúrufræðistofnun Íslands varðveitir borkjarna sem teknir hafa verið úr borholum víðast hvar á landinu í framkvæmda- eða rannsóknaskyni. Borkjarnar gera jarðfræðingum mögulegt að skoða þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar og þeir veita mikilvægar upplýsingar um gerð og uppbyggingu jarðlaga á viðkomandi svæði.

Árið 2015 tókust samningar við Breiðdalshrepp um að stofnunin myndi leigja fyrrum sláturhús staðarins, um 990 fm hús, undir borkjarnasafnið. Áður voru borkjarnarnir geymdir í vöruhúsi á Akureyri sem var orðið yfirfullt og með takmörkuðum aðgangi. Því þótti brýnt að bæta úr og finna safninu nýtt húsnæði með aðstöðu þar sem unnt væri að varðveita kjarnana í hillurekkum, skrásetja þá í gagnagrunn, gera upplýsingar aðgengilegar á vefnum og hafa borkjarnana aðgengilega fræðimönnum til rannsókna.

Undanfarin ár hefur verið unnið að þróun fræðaseturs í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík. Setrið er að hluta tileinkað jarðfræði Austurlands og störfum breska jarðfræðingsins G.P.L. Walker. Starfsemin hefur aukið sókn jarðfræðinga og nemenda í jarðfræði til Breiðdalsvíkur, sem vilja fræðast um jarðfræði Íslands. Borkjarnasafnið og Breiðdalssetur gerðu með sér samstarfssamning á þessu ári þar sem meðal annars var kveðið á um vinnu jarðfræðings frá setrinu í hálfi starfi við borkjarnasafnið. Vonir standa til að hægt verði að halda því samstarfi áfram á næsta ári, en það er háð því að fjármagn fáist til að kosta jarðfræðing í hálfu starfi frá Breiðdalssetri.

Borkjarnasafnið á Breiðdalsvík hýsir í dag 30–40.000 metra af borkjörnum úr meira en 800 borholum. Flestar borholurnar eru grunnar eða nokkrir tugir til nokkur hundruð metrar en dýpsta holan er 2 km djúp. Oft eru upplýsingar sem borkjarnarnir búa yfir einstakar og eru þeir því gersemar í augum margra jarðfræðinga. Uppbygging borkjarnasafnsins er komin vel á veg og á næsta ári verður lokið við að setja upp hillur og koma kjörnum þar fyrir. Skráning kjarnanna hefst á árinu. Í borkjarnasafninu verður góð varðveislu- og rannsóknaraðstaða og eru gestir velkomnir.