Nýtt kort af útbreiðslu alaskalúpínu á Íslandi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur kortlagt útbreiðslu alaskalúpínu og er það í fyrsta sinn sem það er gert hér á landi. Það var gert í tengslum við umfangsmikið verkefni sem stofnunin hefur unnið að síðustu ár, og er að leggja lokahönd á, sem felst í að skilgreina, flokka og kortleggja vistgerðir á landinu öllu. Alaskalúpína, sem skilgreind er sem ágeng, framandi plöntutegund hér á landi, er orðin mjög útbreidd og þekur víða stór svæði og því þótti ástæða til að kortleggja útbreiðslu hennar sérstaklega.  

Verkið var unnið þannig að farið var skipulega yfir loftmyndir af öllu landinu til að leita að og merkja inn staðsetningu lúpínu utan þekktra vaxtarstaða. Notaðar voru loftmyndir frá Loftmyndum ehf. sem teknar voru á árunum 1998–2015. Því næst var farið yfir þekkt lúpínusvæði í kortagrunni stofnunarinnar og færðar inn augljósar breytingar sem orðið höfðu á útbreiðslu frá fyrri kortlagningu. Landgræðsla ríkisins lagði til gögn um lúpínusáningar á landgræðslusvæðum og voru þau yfirfarin og breytingar á útbreiðslu lúpínu færðar inn.  Auk þessa var „Google-vegakort“ notað til að kanna svæði þar sem grunur lék á að lúpínu væri að finna með þjóðvegum en aðrar upplýsingar voru ekki um. Með þeim hætti fundust fjölmargir vaxtarstaðir lúpínu sem ekki komu fram á eldri loftmyndum.

Þar sem lúpína hafði myndað greinilegar samfelldar breiður voru þær teiknaðar upp sem flákar. Væri um margar og smáar breiður á sama svæði voru þær felldar inn í einn eða fleiri fláka. Í hverjum kortlögðum fláka var þekja lúpínu metin og hún kvörðuð. Í þeim tilvikum þar sem stakar eða örfáar lúpínuplöntur sáust á nýjum svæðum, án þess að hafa myndað samfelldar breiður, voru merktir inn á kortið punktar en flatarmál ekki reiknað. 

Útbreiðsla alaskalúpínu árið 2016

Nýtt útbreiðslukort alaskalúpínu og útreikningar á heildarflatarmál lúpínusvæða gefa allgóða en ekki tæmandi mynd af stöðu tegundarinnar hér á landi árið 2016. Lúpína þekur að lágmarki 314 km2. Langmest er hún á Suðurlandi (149 km2) og Norðausturlandi (100 km2) en í þeim landshlutum hefur henni mest verið dreift. Á Suðvesturlandi, einkum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ, er einnig mikil lúpína (37 km2). Í öðrum landshlutum er lúpína snöggtum minni.

Loftmyndirnar sem kortlagt var eftir vor flestar teknar eftir árið 2000 og meirihluti mynda af þéttbýlustu láglendissvæðum landsins voru teknar eftir 2005. Lúpína breiðist hins vegar hratt út á svæðum þar sem hún hefur náð fótfestu og því skiptir miklu að vera með sem nýjastar loftmyndir til að fá rétta mynd af stöðunni. Vegna þessa má telja líklegt að um talsvert vanmat sé að ræða og jafnvel má áætla gróflega að flatarmál lúpínu í landinu sé hér vanreiknað um að minnsta kosti 20% þannig að hún þeki nær 400 km2 í stað 300 km2

Landshluti Flatarmál Fjöldi fláka Fjöldi punkta
Suðvesturland 36,8 7.903 6.548
Vesturland 9,9 1.418 801
Vestfirðir 4,8 507 159
Norðvesturland 7,3 326 195
Norðausturland 100,5 1.871 1.895
Austurland 5,4 841 721
Suðurland 149,3 4.972 8.767
Samtals 314,0 17.838 19.086

 

Suðvesturland

Útbreiðsla alaskalúpínu á Suðvesturlandi árið 2016Á Suðvesturlandi eru stærstu lúpínusvæðin ofan byggðar frá Mógilsá á Kjalarnesi um Mosfellsbæ, Hólmsheiði, Heiðmörk og suður í hraunin ofan Hafnarfjarðar. Þá er mikil og vaxandi lúpína frá Vogum um Keflavík og Miðnesheiði, út til Garðs og Hafna, og í nágrenni Grindavíkur. Á öllu þessu svæði er sauðfjárbeit nær engin lengur og fátt sem setur útbreiðslu lúpínunnar skorður nema beinar aðgerðir til að hefta hana. Fari fram sem horfir mun lúpína leggja undir sig stóran hluta Reykjanesskagans á næstu áratugum og öldum en gróður þar veitir henni lítið viðnám.

Vesturland

Útbreiðsla alaskalúpínu á Vesturlandi árið 2016Á Vesturlandi er mest um lúpínu í Hvalfjarðarbotni, á Hafnarmelum og við Skorradalsvatn. Í dölum Borgarfjarðar og út um Mýrar eru minni og dreifðari svæði með lúpínu, en þar hefur hún á nokkrum stöðum borist niður með ám svo sem með Langá á Mýrum, Norðurá og Hvítá í Borgarfirði. Á norðanverðu Snæfellsnesi er lúpína meðal annars við Hellissand, Ólafsvík, Stykkishólm og á skógræktarsvæði í Helgafellssveit.

Vestfirðir

Á Vestfjörðum er lúpínu einkum að finna við þéttbýlisstaði þar sem land hefur verið girt af til skógræktar og uppgræðslu, eins og fram kemur við Patreksfjörð, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Bolungarvík, Ísafjörð og Hólmavík. Á Höfða í Dýrafirði er mikil lúpína í skógræktargirðingu sem þar er og mikil lúpína er við Ósafjörð sem gengur inn frá botni Patreksfjarðar. Víða á Vestfjörðum, svo sem á Barðaströnd og í Ísafjarðardjúpi, er að finna lúpínubletti með þjóðvegum sem gefa til kynna hvað koma skal á þeim svæðum. Það vekur sérstaka athygli að lúpínu er nú að finna í Leirufirði í Jökulfjörðum en þar er mikið kjörlendi sem lúpínan mun vafalítið breiðast um á næstu áratugum. Eins og víðar á Vestfjörðum er sauðfjárbeit þar engin og lúpínu því gefinn laus taumurinn.

Norðvesturland

Útbreiðsla alaskalúpínu á Norðvesturlandi árið 2016Á Norðvesturlandi er fremur lítið um lúpínu, en land er þar víðast vel gróið og sauðfjárbúskapur útbreiddur. Lúpínu er þar helst að finna á uppgræðslusvæðum við Sigríðarstaði í Vesturhópi og Þingeyrar í Vatnsdal, úti á Skaga, við Sauðárkrók og með Hjaltadalsá. Inni á Arnarvatnsheiði er skráður einn vaxtarstaður lúpínu í vegkanti norðvestur af Arnarvatni stóra, en þar hefur hún náð að þroska fræ og sá sér í um 550 m h.y.s. Einnig vex lúpína í uppgræðslugirðingu við Blönduvatn á Eyvindarstaðaheiði.

Norðausturland

Útbreiðsla alaskalúpínu á Norðausturlandi árið 2016Á Norðausturlandi er eitthvert mesta lúpínusvæði landsins á Hólasandi en þar var hafin stórfelld uppgræðsla með lúpínusáningum árið 1994 á 130 km2 afgirtu svæði. Samkvæmt kortlagningunni er sá hluti sandsins þar sem lúpínu er að finna um 68 km2 og var þekja lúpínu þar metin um fjórðungur. Önnur helstu lúpínusvæði í landshlutanum eru á Siglufirði, í Hrísey, á Hálsmelum í Fnjóskadal,  efst í Bárðardal, við Húsavík, í Kelduhverfi og Núpasveit. Á Norðausturlandi er þurrviðrasamt og lúpína verður þar ekki mjög gróskumikil eða þétt á melasvæðum inn til landsins. Skilyrði eru hins vegar betri fyrir hana í mólendi þar sem gamall og rakaheldinn áfoksjarðvegur er undir. Líklegt er að lúpína muni víða leggja slíkt land undir sig í landshlutanum á svæðum þar sem tekið hefur fyrir sauðfjárbeit.

Austurland

Útbreiðsla alaskalúpínu á Austurlandi árið 2016Á Austurlandi er útbreiðsla lúpínu nokkuð áþekk og á Vestfjörðum. Þar er lúpínu einkum að finna innan beitarfriðaðra svæða við þéttbýli frá Vopnafirði suður í Djúpavog. Kortlagningin gefur til kynna að lúpína sé mest í Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði. Nokkur lúpína er einnig á Úthéraði.

 

 

Suður- og Suðausturland

Útbreiðsla alaskalúpínu á Suður- og Suðausturlandi árið 2016Á Suður- og Suðausturlandi er meira um lúpínu en í öðrum landshlutum en þar hefur henni verið dreift á mörgum svæðum, einkum til uppgræðslu og með skógrækt. Helstu svæði þar sem lúpínu hefur verið sáð í stórum stíl eru í Selvogi, við Þorlákshöfn, á Haukadalsheiði, í Þjórsárdal, við Gunnarsholt á Rangárvöllum, á Markarfljótsaurum, Skógasandi og Sólheimasandi, á Mýrdalssandi og í Öræfum. Kortlagningin sýnir glöggt að lúpína hefur víða dreift sér niður með vatnsföllum á Suðurlandi og numið land á eyrum og í hólmum, eins og fram kemur við Hvítá, Þjórsá, Ytri-Rangá og Skeiðará. Í eða við þjóðgarða og friðlönd er lúpína við Þingvallavatn, í Þórsmörk, í Skaftafelli og við Svínafell í Öræfum.  Í Jökulheimum, undir Snjóölduhyrnu og við Hrauneyjarlón á vatnasviði Tungnaár. Þá eru þekktir vaxtarstaðir lengra inn á hálendinu, í Þverbrekknamúla, við Setrið austan Kerlingarfjalla, við Skrokköldu og við Gæsavötn. Í Vestmannaeyjum er talsverð lúpína á hrauninu sem rann í gosinu 1973 en einnig á eldra hrauni sunnan bæjarins.

Áhugavert er að setja flatarmál lúpínusvæða í samhengi við aðrar skyldar stærðir. Ef gert er ráð fyrir að lúpínu sé að finna á um 350 km2 lands samsvarar það um 0,3% af heildarflatarmáli landsins. Þau eru um 23% af flatarmáli birkiskóga (1510 km2), um 88% af flatarmáli ræktaðra skóga (400 km2) og um 32% af flatarmáli ræktaðra túna á landinu (1100 km2), samkvæmt upplýsingum frá Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Rétt er að taka fram að sum lúpínusvæðanna eru innan skógræktarlands og er því um nokkra skörun að ræða.

Með hinu nýja korti fæst í fyrsta sinn heildaryfirlit yfir útbreiðslu og flatarmál lúpínulands á Íslandi. Kortið mun koma að notum til að fylgjast með útbreiðslu og nýtingu lúpínu á landinu og við skipulagningu aðgerða til að reyna að hafa einhverja stjórn þar á. Til að bæta gæði kortlagningarinnar er nauðsynlegt að afla nýrra loftmynda af svæðum þar sem myndir voru komnar til ára sinna. Jafnframt er nauðsynlegt að fara um landið og skrá inn nýja fundarstaði og kortleggja betur eldri svæði þar sem mest er um lúpínu. Með því móti væri hægt að fara mjög nærri um hver útbreiðsla lúpínunnar er í raun.