Steingervingar á sýningu um Surtarbrandsgil

Surtarbrandsgil er einn merkasti fundarstaður plöntusteingervinga á Íslandi og sá tegundaríkasti. Steingervingarnir hafa varðveist í fíngerðri vatnasetmyndun sem inniheldur kísilþörunga og surtarbrandslög. Alls  hafa verið greindar um 65 tegundir plantna og þar af nokkrar sem ekki hafa fundist í setlögum annars staðar á Íslandi. Margar tegundirnar eru núna útdauðar. Algengustu plöntusteingervingarnir í Surtarbrandsgili eru blöð af fornelri og íslandsbirki, ásamt blöð og aldin íslandshlyns. Þá hafa einnig verið rannsökuð frjókorn og skordýr. Steingervingarnir geyma mikilvægar vísbendingar um forn gróðurfélög og loftslag fyrir um 12 milljónum árum til dæmis að á Íslandi hafi ársmeðalhiti verið allt að 10°C hærri en í dag.

Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 en í gegnum tíðina hafa steingervingar verið fjarlægðir þaðan og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar. Skipuleg fræðsla um mikilvægi þess að varðveita fundarstaði steingervinga er brýn og er sýning eins og þessi, auk landvörslu og uppsetningu skilta, liður í því.

Umhverfisstofnun stendur að sýningunni í samstarfi við ábúendur á Brjánslæk. Frétt á vef Umhverfisstofnunar.

Nánar um plöntusteingervinga