Hvítabjörn sem felldur var við Hvalnes á Skaga var fullorðin birna

Fréttatilkynning frá Keldum og Náttúrufræðistofnun Íslands

Sunnudaginn 17. júlí 2016 krufðu sérfræðingar á Tilraunastöðinni á Keldum, þau Karl Skírnisson dýrafræðingur og Ólöf Guðrún Sigurðardóttir dýralæknir, hvítabjörn á Náttúrufræðistofnun Íslands og nutu við það aðstoðar Þorvalds Björnssonar hamskera á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Um var að ræða fullorðna birnu sem felld var kvöldið áður við Hvalnes á Skaga. Birnan var með mjólk í spenum þannig að ekki er langt síðan að húnn (eða húnar) fylgdu henni. Þarna var á ferðinni meðalstórt dýr (lengd frá trýni aftur á dindil 207 cm, þyngd 204 kíló) en mun feitara heldur en þeir birnir sem hingað hafa synt undanfarin ár. Áætlað er að um 30% líkamsþyngdarinnar hafi verið spik þannig að ljóst er að dýrið hefur nærst eðlilega undanfarna mánuði.

Nýleg smásár voru á haus og bóg en óljóst er hvernig dýrið fékk þessar skeinur. Grafið hafði í bógsárinu þannig að það var að minnsta kosti nokkurra daga gamalt. Fjölmörg sýni voru tekin úr dýrinu sem rannsökuð verða næstu daga og mánuði, meðal annars sýni sem ætluð eru til mælinga á styrk þrávirkra klórkolefnissambanda, þungmálmum, styrk geislavirkra efna og mótefnum gegn veirum. Margvísleg vefjasýni voru tekin til vefjameinafræðilegra rannsókna. Leitað verður sníkjudýra í meltingarvegi og uppruni fæðuleifa sem fundust í ristli greindur en maginn reyndist vera tómur. Leitað verður að tríkínum í sýnum úr tungu, þind og kjálkavöðva en um helmingur hvítabjarna í Austur-Grænlandsstofninum er með þetta sníkjudýr sem ekki þekkist á Íslandi og setur Ísland þar með í hóp örfárra landa þar sem tríkínur ógna ekki heilbrigði manna.

Fyrirhugað er að súta skinnið og bein og hauskúpa verða hreinsuð á Náttúrufræðistofnun þar sem beinagrindin verður varðveitt. Birnan verður aldursgreind með því að telja árhingi í tannrótum en athuganir á tönnum geta einnig gefið aðrar mikilvægar upplýsingar um lífsferil viðkomandi dýra.

Keldum 18.7.2016
Karl Skírnisson, dýrafræðingur
Ólöf Guðrún Sigurðardóttir, dýralæknir

Sjá grein Karls Skírnissonar um aldur og ævi hvítabjarnanna sem syntu til landsins 2008 í Náttúrufræðingnum: Karl Skírnisson. (2009). Um aldur og ævi hvítabjarna. Náttúrufræðingurinn 78 (1-2):39-45.