Mikið magn grasfrjóa í Garðabæ en lítið á Akureyri

Nú þegar frjómælingar í júlí eru hálfnaðar hafa mælst 733 frjó/m3 í Urriðaholti.  Meðalfrjótala fyrir júlí er 888 frjó/m3. Með þessu áframhaldi stefnir í met í heildarfjölda frjókorna í júlímánuði frá upphafi mælinga í Urriðaholti.  Tæpur helmingur þessara frjókorna hingað til eru grasfrjókorn sem flestir hafa ofnæmi fyrir. Þau eru helst að dreifast í þurrum vindi og hlýindum. Undanfarin ár hafa mun færri  grasfrjó mælst í ágúst en í júlí og eru góðar líkur á að svo verði einnig í ár og ágústmánuður því þolanlegri fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi.

Á Akureyri höfðu mælst 293 frjó/m3 um miðjan júlí. Þar er meðalfrjótala júlímánaðar 870 frjó/m3. Grasfrjó hafa einungis mælst 107 frjó/m3. Miðað við þessar lágu frjótölur og þá staðreynd að grasfrjó mælast yfirleitt fleiri í ágúst en í júlí eru miklar líkur á að ágúst verði aðalgrasfrjómánuður sumarsins fyrir norðan. Þetta ræðst þó mikið af veðri næstu vikurnar.