Lúsmý herjar á íbúa sumarhúsa

Lúsmý tilheyrir ættinni Ceratopogonidae sem hýsir fjölda tegunda þess um heim allan. Hér á landi hafa einungis sex tegundir verið nafngreindar til þessa, en ættin hefur litla athygli hlotið vegna þess hve óaðgengileg hún er og torvelt að greina tegundirnar.

Í nágrannalöndum okkar eru margar tegundir sem sumar hverjar leggjast á okkur mannfólkið og geta orðið til mikils ama. Þær sem okkur girnast eru allar af ættkvíslinni Culicoides sem hefur til þessa ekki verið staðfest hér á landi. Það er samt ekki óvarlegt að ætla að þær sem höguðu sér svona dólgslega um helgina tilheyri þessari ættkvísl og séu því nýjung í smádýrafánu okkar.

Enn hefur ekki tekist að finna tegundinni fræðiheiti. Það liggur beinast við að leita til nágrannalanda eftir líklegum kostum, en ýmsir koma til greina. Í Skotlandi finnast 16 tegundir sem leggjast á fólk. Það þarf að leggjast í frekari rannsóknavinnu.

Tegundir lúsmýs eru sumar hverjar illa þokkaðar fyrir það að bera smit í húsdýr, sem valda m.a.  Blue tong sýki í nautgripum. Hestar geta sýnt ofnæmisviðbrögð við munnvatni flugnanna sem valda sumarexemi, en það er algengt hjá íslenskum hestum sem fluttir eru fullorðnir til útlanda.  Engin skosku tegundanna er þekkt fyrir að sýkja menn en atlögurnar geta verið óvægnar. Oft verða menn ekkert varir við agnarsmá kvikindin þegar þau mæta á blóðbarinn og vita því ekkert hvaðan veðrið hefur á þá staðið þegar skyndilega roði, kláði og bólgur í húð fara að blossa upp. Flugurnar geta lagt til atlögu mýmargar saman, tugir eða hundruð, að nóttu sem degi, utan húss sem innan, og skilið eftir sig vesen um líkamann allan á skömmum tíma. Þetta fengu allnokkrir að reyna um nýliðna helgi á nokkrum stöðum við Hvalfjörðinn. Atgangurinn virðist hafa byrjað föstudaginn 26. júní og lýsing segir að hafi keyrt um þverbak síðdegis á sunnudeginum, meira að segja svo að fólk flúði úr sumarhúsasælunni til byggða.

Uppeldisstöðvar lúsmýslirfa geta verið við ýmsar aðstæður; í vatni, blautum og rökum jarðvegi eða í skíthaugum við gripahús.

Þessi atburðarás á nokkrum stöðum er undarlega samstillt í tíma. Einhverjar veðurfarslegar aðstæður hljóta að liggja þar að baki. Ekki er nokkur leið að geta sér til um upphaf þessa máls. Hvenær bárust mýflugurnar til landsins, hvaðan og hvernig? Og hví varð ekki vart við þær víðar? Það verður áfram fylgst með þessu máli og væri áhugavert að fá sendar í tölvupósti upplýsingar með sem nákvæmustum staðsetningum ef fleiri búa yfir slíkum reynslusögum eftir helgina (erling@ni.is). Ekki væri verra ef menn handsömuðu eintök og kæmu þeim til Náttúrufræðistofnunar Íslands til frekari skoðunar.

Þó ekki sé þetta nein skemmtisaga þá hefur verið gantast með þessa uppákomu: Flugurnar kunna að hafa farið í útrás frá einhverju nágrannalandi, gert innrás í Ísland og árás og okkur landsmenn!