Borkjarnasafn flyst á Breiðdalsvík

Borkjarnar falla til við jarðboranir og eru nauðsynleg gögn við jarðvísindalegar rannsóknir hvort sem um ræðir grunnrannsóknir eða hagnýtar í þágu orkuöflunar eða mannvirkjaframkvæmda. Borkjarnar og borsvarf gera mögulegt að skoða þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar. Það er því mikilvægt að varðveita slík sýni og hafa þau aðgengileg á sambærilegan hátt og önnur vísindaleg sýni.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur það lögboðna hlutverk að varðveita borkjarnana, sem í dag vega yfir 300 tonn. Safnið hefur verið hýst í húsnæði á Akureyri sem stofnunin hefur haft á leigu. Eftir því sem safnið hefur stækkað hefur húsnæðið smám saman orðið of lítið og aðgengi vísindamanna og annarra að borkjörnunum óásættanlegt. Nú er svo komið að húsnæðið er yfirfullt og engin aðstaða til að vinna með kjarnana. Með flutningi safnsins á Breiðdalsvík kemst safnið í fullnægjandi húsnæði með góðri vinnuaðstöðu, auk þess sem húsnæðiskostnaður lækkar umtalsvert sem aftur skapar færi á að byggja upp þekkingarstarfsemi um borkjarnasafnið.  

Á Breiðdalsvík er starfrækt vísinda- og fræðasetur, Breiðdalssetur. Þar er meðal annars jarðfræðisetur (Walkerssetur) sem er ætlað að vera fræðslu- og upplýsingaveita um íslenska jarðfræði. Náttúrufræðistofnun Íslands mun skipuleggja og reka borkjarnasafnið í samvinnu við Breiðdalssetur. Gert er ráð fyrir að til að byrja með skapist tækifæri fyrir 1–2 störf sem fela í sér sérfræðiþjónustu og vinnu við að flokka og skrá safnið og koma því þannig fyrir að það verði aðgengilegt vísindamönnum og öðrum sem þurfa aðgengi að borkjörnum vegna rannsókna.