Surtsey í sjónmáli á degi líffræðilegrar fjölbreytni

Það vakti mikla athygli og áhuga vísindamanna um víða veröld þegar Surtsey reis úr sæ árið 1963. Með tilkomu eyjarinnar skapaðist einstakt tækifæri til að fylgjast með myndun og mótun eldfjallaeyjar, baráttu hennar við atlögur sjávar og hvernig ördautt land glæddist lífi. Surtsey var strax friðlýst og eyjan hefur alla tíð hefur verið lokuð fyrir umferð annarra en vísindamanna. Rannsóknir á Surtsey hafa staðið óslitið frá upphafi og hálfrar aldar náttúrusaga hennar er ítarlega skráð í um 600 ritum og fræðigreinum. Þetta gerir Surtsey einstaka og varð til þess að hún var samþykkt á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2008.

Í bókinni „Surtsey í sjónmáli“ gefst almenningi tækifæri til að skyggnast inn í dulinn heim Surtseyjar og kynnast jarðfræði, framvindu gróðurs, fuglalífi og hvernig samfélag smádýra mótast. Saga eyjarinnar er sögð í máli og myndum sem fæstar hafa áður komið fyrir augu almennings.

Höfundar bókarinnar eru báðir sérfræðingar í sögu Surtseyjar. Erling Ólafsson skordýrafræðingur hefur starfað á Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1978. Hann hóf rannsóknir á smádýrum og fuglalífi á Surtsey árið 1970 og standa rannsóknir hans enn yfir. Í rannsóknaferðum sínum hefur hann tekið fjölda ljósmynda sem sýna þróunina á Surtsey og birtast margar þeirra í bókinni. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur hóf störf hjá Náttúrufræðistofnun Íslands árið 2001 við upplýsingar og miðlun. Árin 2008-2010 starfaði hún hjá Umhverfisstofnun sem sérfræðingur friðlandsins í Surtsey og kom á fót Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum árið 2010. Hún starfar nú hjá Náttúrufræðistofnun þar sem hennar helstu verkefni eru landupplýsingar og verndun jarðminja, auk jarðfræðirannsókna á Surtsey.

Það er Edda útgáfa sem gefur bókina út en hún kemur hvoru tveggja út á íslensku og ensku, „Surtsey in Focus“.

Það er ánægjulegt að bókin Surtsey í sjónmáli komi út á þeim degi sem Sameinuðu þjóðirnar ákváðu fyrir 13 árum að tilnefna alþjóðlegan dag líffræðilegrar fjölbreytni. Í ár er hann einmitt tileinkaður líffræðilegri fjölbreytni á eyjum í þeirri viðleitni að auka skilning á gildi lífríkis eyja og innbyrðis tengsla milli umhverfisverndar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda. Nánar má lesa um alþjóðlegan dag líffræðilegrar fjölbreytni á vef Samningsins um líffræðilega fjölbreytni.