Frjókorn rauðelris láta á sér kræla


Á myndinni má sjá rekla rauðelris. ©MH

Þann 6. mars var rauðelri kominn með blóm í görðum í Reykjavík. Elri, öðru nafni ölur, lat. Alnus, er af sömu ætt og birki og frjókornin geta valdið ofnæmi, einkum hjá þeim sem eru með ofnæmi fyrir birkifrjóum.

Elrið blómstrar áður en tréð laufgast. Fyrir þá sem vilja forðast elri þá er auðveldast að þekkja trén svona snemma árs á kúlulaga kvenreklum frá sl. hausti, sem enn hanga á smástilkum og geta minnt á köngla.

Á Íslandi hefjast frjómælingar ekki fyrr en um miðjan apríl þannig að við sem mælum frjókorn í lofti missum oftast af frjókornum elris, fáum reyndar lítið eitt af elrifrjóum í maí þegar grænelri lifnar við eftir vetrardvala. Vefsíða frjómælinga á Náttúrufræðistofnun er uppfærð reglulega þegar frjómælingar hefjast.

Nágrannalönd okkar eru farin að senda út tilkynningar um frjómælingar. Þær má t.d. finna hjá DMI Vejr, klima og hav í Danmörku, Norges astme- og allergiforbund í Noregi Naturhistoriska riksmuseet í Svíþjóð og Polleninfo.org sem er vefur sem heldur utan um frjómælingar í Evrópu, m.a. frá Íslandi.

Upplýsingar sem þar koma fram gætu komið því fólki að gagni, sem haldið er frjóofnæmi og hyggur á ferðalög til útlanda.