Frjómælingar á Akureyri og í Reykjavík í ágúst 2009

Heildarfjöldi frjókorna í Reykjavík í ágúst reyndist sá fjórði minnsti á 22 árum, tæplega 540 frjó í rúmmetra (meðaltalið er rúmlega 1000 frjó í rúmmetra lofts). Grasfrjó voru algengust eins og alltaf í ágúst, eða rétt rúmlega 400. Frjótala grasa náði 142 þann 3. ágúst. Hún var há næstu þrjá daga og 11. og 20. ágúst fór hún yfir 10 en hélst lág eftir það. 22. ágúst kom fyrsti dagur sumarsins sem ekkert grasfrjó mældist og 26. mældust engin frjó yfirhöfuð. Það má því segja að kominn sé haustsvipur á frjótölur í Reykjavík.

Heildarfjöldi frjókorna í ágústmánuði á Akureyri reyndist undir meðallagi eða 521 frjó í rúmmetra lofts (meðaltalið er um 820 frjó í rúmmetra). Þetta er þriðji lægsti ágústmánuður frá því mælingar hófust 1998. Eins og endranær voru grasfrjó algengust (474). Frjótala grasa hélst undir meðallagi þar til í vikunni eftir Verslunar­mannahelgi að grasfrjóum fjölgaði. Frjótalan varð hæst 95 þann 7. ágúst. Grasfrjó mældust aftur yfir meðallagi 23. og 26. ágúst.

Frjótölur birtast á síðu 169 í textavarpi RÚV. Einnig má skoða frjótölur á vef Morgunblaðsins. Fjótölur birki- og grasfrjóa birtast á vef Náttúrufræðistofnunar sem súlur á myndriti jafnóðum og tölur liggja fyrir. Þar má sjá hvernig sumarið í ár kemur út m.t.t. frjómælinga fyrri ára.

Sjá nánar fréttatilkynningu um frjómælingar frá Náttúrufræðistofnun

(pdf)