Norræna mosafræðifélagið (NBS) í skipulagðri ferð á Íslandi

Þórður Júlíusson, líffræðingur og bóndi í Norðfirði, sá um skipulagningu í ár. Ferðalangarnir gistu á Möðrudal og ferðin var einskorðuð við norðausturland þar sem fólkið heimsótti Herðubreiðarlindir, Mývatn og Ásbyrgi svo eitthvað sé nefnt.

Meðfylgjandi myndir eru frá skoðunarferð hópsins í kringum Lagarfljót undir leiðsögn Helga Hallgrímssonar fjölfræðings. Á sínum yngri árum skoðaði Helgi mosa og hefur engu gleymt, en síðustu ár hefur hann einbeitt sér að skrifum um sveppi. Vænta má að glæsileg sveppabók sem Helgi hefur unnið að síðustu árin komi út á áður en langt um líður. Starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, Gróa Valgerður Ingimundardóttir líffræðingur, fékk jafnframt að slást í för með hópnum þennan dag enda ekki á hverjum degi sem hópur fólks sýnir tegundagreiningu mosa á Íslandi áhuga.



Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi stofnunarinnar á Akureyri árið 2008. Nokkra starfsmenn vantar á myndina. Ljósm. Kjartan Birgisson.



Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi stofnunarinnar á Akureyri árið 2008. Nokkra starfsmenn vantar á myndina. Ljósm. Kjartan Birgisson.

Fyrsti viðkomustaður þessa dags var Eyjólfsstaðaskógur. Hér má sjá Helga Hallgrímsson lengst til hægri og lengst til vinstri situr Huub van Melick frá Hollandi sem er áhugamaður um mosafræði. Ljósm. Gróa Valgerður Ingimundardóttir. Þarna komust ferðalangarnir í feitt en á þessum klettum var töluvert um smáa og erfiða mosa sem ekki var unnt að greina á staðnum. Tegundirnar tilheyrðu m.a. ættkvísl kragamosa (Scihstidium spp.). Ljósm. Gróa Valgerður Ingimundardóttir.

Tegundalisti úr ferðinni er enn ekki tilbúinn enda hafa margir eflaust tekið vafaeintök með sér heim til nánari athugunar undir smásjá. Listans er þó að vænta áður en langt um líður og verður spennandi að vita hvort nýjar tegundir hafi bæst við íslenska tegundalistann þar sem mosategundir geta lengi leynst áður en þær eru uppgötvaðar og þarf þá alls ekki að vera um nýja landnema að ræða. Árið 2003 kom út síðasta fjölrit Náttúrufræðistofnunar um íslenska mosa eftir mosafræðinginn Bergþór Jóhannsson (1933–2006). Þetta var 22. fjölritið sem hann skrifaði um þetta efni og hafði hann þá lýst 604 íslenskum mosategundum, eru þá meðtaldar allar tegundir blaðmosa, soppmosa og hornmosa. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar er hægt að nálgast í afgreiðslu stofnunarinnar bæði í Reykjavík og á Akureyri, ásamt því að sum eintakanna er einnig hægt að nálgast á pdf-formi.

Þess má geta á Náttúrufræðistofnun hefur tæplega 49.000 eintök af íslenskum mosum í safni sínu, þá eru ótalin erlend sýni stofnunarinnar sem enn eru óskráð.