Nú má nálgast bæklinginn „Evrópskur sáttmáli um veiðar og líffræðilega fjölbreytni“ á vef Náttúrufræðistofnunar

Framangreindur sáttmáli byggir á skyldum og reglum Bernarsamningsins og samningsins um vernd líffræðilegrar fjölbreytni (en Ísland hefur samþykkt báða þessa samninga). Sáttmálinn á rætur sínar að rekja til grundvallarreglu samningsins um líffræðilega fjölbreytni um sjálfbæra þróun/nýtingu eins og hún er útskýrð í svokallaðri Addis Ababa samþykkt og í Malawi samþykkt um vistfræðilega nálgun. Aðildarríki Bernarsamningsins ákváðu að í þessum sáttmála skyldi lögð áhersla á atriði sem ekki er fjallað um á öðrum vettvangi. Undir þetta falla veiðar, veiðar og ferðaþjónusta, viðmiðanir um kröfur og staðla fyrir evrópska veiðimenn þ.á m. um fræðslu, almenna þekkingu og öryggismál. Sáttmálinn inniheldur 12 meginreglur og 47 leiðbeiningar fyrir eftirlits- og framkvæmdaraðila með líffræðilegri fjölbreytni. Jafnframt inniheldur sáttmálinn 59 leiðbeiningar fyrir veiðimenn og ferðaþjónustuaðila á sviði veiðimennsku.

Líta ber á sáttmálann um veiðar og líffræðilega fjölbreytni sem leiðbeiningar fyrir viðkomandi yfirvöld og hagsmunaaðila og lagt er til að aðildarríkin noti hann við innleiðingu og mótun stefnu um sjálfbærar veiðar og náttúruvernd.

Bæklingurinn „Evrópskur sáttmáli um veiðar og líffræðilega fjölbreytni“ á pdf-formi.