25. mars 2015. Borgþór Magnússon: Nishinoshima: ný eldey myndast sunnan Japan

25. mars 2015. Borgþór Magnússon: Nishinoshima: ný eldey myndast sunnan Japan

Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Nishinoshima: ný eldey myndast sunnan Japan“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 25. mars kl. 15:15.

Nishinoshima er lítil og afskekkt eldey sem liggur í eyjaklasa í Kyrrahafi um 1000 km suður af Japan. Eyjan, sem er toppur á gríðarstóru neðansjávareldfjalli, er talin hafa myndast í eldgosum á nútíma. Um 1950 urðu sjómenn á fiskiskipi varir við eldsumbrot á eynni en lítið er um þau vitað. Á þeim tíma var eyjan innan við 0,1 km2 að flatarmáli. Í lok maí árið 1973 hóst eldgos við eyna sem stóð í tæpt ár. Í gosinu reis önnur lítil eyja skammt frá þeirri gömlu. Við sjávarrof kvarðnaðist úr nýju eynni og myndaðist eiði sem tengdi eyjarnar saman svo úr varð ein. Árið 2004 var eyjan liðlega 0,2 km2 að flatarmáli. Í nóvember árið 2013 tók aftur að gjósa við Nishinoshima og myndaðist lítil eyja skammt undan strönd hennar og stækkaði ört. Í lok desember hafði nýja eyjan tengst þeirri gömlu. Gosið hefur haldið óslitið áfram og í lok febrúar 2015 var nýja eyjan orðin um 2,5 km2 að flatarmáli og megingígur hennar liðlega 100 m hár. Hraun hafði þá runnið yfir og hulið að mestu gömlu eyna. Líklegt er að lífríki hennar hafi að mestu þurrkast út og að landnám hefjist að nýju. Skapast því einstakt tækifæri til rannsókna á hinni nýju eyju eins og við myndun Surtseyjar fyrir liðlega 50 árum.

Lífríki Nishinoshima var kannað upp úr síðustu aldamótum. Á eynni uxu þá sex tegundir háplantna, þar urpu átta tegundir fugla og einnig fannst nokkuð af smádýrum. Í erindinu verða tíndir saman fróðleiksmolar um Nishinoshima eyju og hún borin lítillega saman við Surtsey