14. febrúar 2018. Tómas J. Knútsson: Blái herinn

Tómas J. Knútsson, formaður umhverfissamtakanna Bláa hersins, flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 14. febrúar kl. 15:15.

Blái herinn hefur síðan 1995 verið leiðandi í verkefnum sem lúta að hreinsun og fegrun landsins. Verkefnin eru margvísleg en þau einkum hefur verið lögð áhersla á hreinsun sjávarstrandar og sjávar. Yfir 1.400 tonn af alls kyns rusli hafa verið hreinsuð og þar af eru um 100 tonn af rafgeymum. Af hafsbotni hafa verið hreinsuð yfir 300 dekk og 100 rafgeymar. Samtökin eru borin uppi af sjálfboðaliðum en vinnustundir þeirra eru yfir 60 þúsund frá upphafi.

Blái herinn hefur tekið virkan þátt í fræðslu um umhverfismál og meðal annars heimsótt tugi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Samtökin hafa fengið á annan tug viðurkenninga, meðal annars umhverfisverðlaun Reykjanesbæjar 2003, umhverfisverðlaun Ungmennafélags Íslands 2004, Umhverfisviðurkenningu Pokasjóðs 2004 og náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti 2014.

Í fyrirlestrinum verður stiklað á sögu Bláa hersins í máli og myndum. Sagt frá vinningum og töpuðum stríðum við rusl og yfirvöld, rætt um hvað er til ráða og framtíðarsýn samtakanna.

Fyrirlesturinn á Youtube