Arnarvarp fer vel af stað en horfur tvísýnar

Vitað er um 51 par sem hefur orpið, einu fleiri en fyrra sem var metár og komust þá upp 40 ungar. Nú getur hins vegar brugðið til beggja vona með varpárangur. Þessa dagana eru arnarungar að klekjast og eiga foreldrarnir jafnan erfiðara að draga björg í bú í þeim nöpru vindum sem virðast ætla blása um arnarbyggðina á næstunni. Ernir á varpstöðvum eru jafnframt berskjaldaðir fyrir hvers kyns truflunum fram eftir júnímánuði.

Arnarstofninn telur nú ríflega 70 pör og hefur vaxið hægt og bítandi í hálfa öld er hann var innan við 20 pör. Örninn er vaktaður af Náttúrufræðistofnun Íslands í samvinnu við Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík, áhugamenn og Fuglaverndarfélag Íslands.