Steingervingar

Steingervingar (e. fossils) eru leifar eða afsteypur af fornum dýrum eða plöntum sem finnast í jarðlögum um allan heim. Þeir eru mikilvægir því þeir veita upplýsingar um þróun lífs á jörðinni, marka tímabil jarðsögunnar og gefa vísbendingar um fornar umhverfisaðstæður, til dæmis hitastig, úrkomu, vatnsdýpi, súrefni og seltu.

Steingervingar varðveitast misvel og geta fundist sem afsteypur, spor, lífför, frjókorn og smádýr í rafi (forn trjákvoða).

Elstu steingervingar sem hafa fundist á jörðinni eru ummerki eftir örverur, sem lifðu fyrir tæpum 4 milljörðum árum. Elstu steingervingar fjölfrumunga eru um 600 milljóna ára gamlir og finnast í Ediacaran í Suður Ástralíu sem má lesa nánar um á Wikipedia.

Leifar lífvera sem finnast í ungum setlögum, mynduðum á nútíma (síðustu 12.000 árin), eru oft nefndar fornlífverur (e. subfossils) þar sem ekki er um eiginlega steingervinga að ræða. Það á til dæmis við um fornskeljar. Hægt er að fræðast nánar um fornlífverur á Wikipedia.

Hvernig verða steingervingar til?

Til að steingervingur geti myndast þarf að uppfylla nokkur skilyrði. Dýr með harða líkamshluta, til dæmis skeljar og beinagrindur, varðveitast betur en þau sem eru eingöngu með mjúka líkamshluta. Ríkjandi umhverfisaðstæður þegar dýrið dó skipta miklu máli, auk kornastærðar setsins og hraða setmyndunar þar sem það grófst undir yngri jarðlög. Til dæmis eru meiri líkur á að dýr sem dó í súrefnissnauðu vatni með eðjubotni varðveitist sem steingervingur en dýr sem dó á þurru landi óvarið fyrir veðri og hræætum. Þá eru ýmsir aðrir þættir sem hafa áhrif svo sem tími, ummyndun og myndbreyting í jarðlögum vegna aukins þrýstings og hitastigs með dýpi. Mjúkir líkamshlutar dýrsins rotna fljótt og með tíma leysast þeir hörðu einnig upp. Í holrýmin sem myndast falla út steindir (steinefni) og lífveran steingerist. Aðeins lítið brot af þeim lífverum sem hafa lifað í jarðsögunni hafa varðveist sem steingervingar.