20. janúar 2016. Ólafur Karl Nielsen: Íslenski fálkinn, lífshættir og vernd

20. janúar 2016. Ólafur Karl Nielsen: Íslenski fálkinn, lífshættir og vernd

Ólafur Karl Nielsen vistfræðingur flytur erindið „Íslenski fálkinn, lífshættir og vernd“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. janúar kl. 15:15.

Fálkinn (Falco rusticolus) er hánorræn tegund og varpheimkynnin eru löndin sem liggja að norðurpólnum. Fálkinn er strjáll varpfugl á Ísland, stofninn telur á bilinu 300 til 600 varppör og með geldfuglum telur stofninn varlega áætlað innan við 2000 einstaklinga. Fálkinn er staðfugl, geldfuglar (eins til þriggja ára gamlir fálkar) flakka um landið en varpfuglar halda sig á sínu óðali árið um kring. Fálkaóðulin eru hefðbundin og notuð ár eftir ár, kynslóð eftir kynslóð. Sum fara í eyði í fækkunarárum en eru setin á ný er fálkum fjölgar, önnur eru setin flest ár. Sum þessara óðala hafa örugglega verið notuð í þúsundir ára.

Fálkinn veiðir flestar þær tegundir fugla sem hér lifa og tekur allt frá smáfuglum líkt og þúfutittlingi (vega um 20 g) og upp í fullorðnar grágæsir (vega um 3,2 kg). Rjúpan er þó aðalfæða fálkans og hann tekur fátt annað ef gnægð er rjúpna. Önnur fæða eru endur (mest rauðhöfði), vaðfuglar (mest spói og lóa), svartfuglar (mest lundi) og gæsarungar (mest heiðagæs).

Rjúpnastofninn tekur reglubundnum breytingum í stærð, rís og hnígur, og hver sveifla tekur um 10 ár. Fálkastofninn sýnir hliðstæðar stofnbreytingar en hnikað og fálkafjöldinn er í hámarki um 2-3 árum á eftir hámarki í stærð rjúpnastofnsins.

Í fyrirlestrinum mun höfundur fjalla um rannsóknir sínar á tengslum fálka og rjúpu. Þessar rannsóknir hafa staðið yfir frá 1981 eða í samtals 35 ár og þetta eru lengstu samfelldu gagnaraðirnar sem til eru og lýsa samskiptum þessara tveggja tegunda, fálka og rjúpu.  Jafnframt er ætlunin að fjalla um nýlega samantekt á útbreiðslu fálka á Íslandi, stofnstærð, helstu ógnir og hvernig best verður staðið að verndun fálka.

Fyrirlesturinn á YouTube