5. mars 2014. Bjarni Diðrik Sigurðsson: Gróðurbreytingar á jökulskerjum Breiðamerkurjökuls

5. mars 2014. Bjarni Diðrik Sigurðsson: Gróðurbreytingar á jökulskerjum Breiðamerkurjökuls

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur erindið „Gróðurbreytingar á jökulskerjum Breiðamerkurjökuls“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 5. mars, 2014, en meðhöfundur hans að erindinu er dr. Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Fjallað verður almennt um rannsóknir sem fram hafa farið síðan 2005 á gróðurframvindu á misgömlum jökulskerjum í Breiðamerkurjökli í Austur-Skaftafellssýslu, í nánu samstarfi við Hálfdán Björnsson á Kvískerjum, Maríu Ingimarsdóttur við Háskólann í Lundi og fleiri aðila. Jökulskerin eru Maríusker sem kom upp úr jökli árið 2000, Bræðrasker sem birtist um 1960 og Kárasker sem birtist um 1940 og Skálabjörg í Esjufjöllum sem hafa væntanlega verið íslaus frá lokum síðustu ísaldar. Þetta verkefni byggir jafnframt á eldra verkefni sem Eyþór Einarsson, fyrrum grasafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, hóf árið 1965 á landnámi plantna í Bræðraskeri og Káraskeri.

Fyrstu niðurstöður sýna að samsetning gróðurs á þessum „eyjum“ er bæði háð aldri þeirra en ekki síður fjarlægð frá næsta „meginlandi“, það er, fjarlægð frá jökuljaðri. Á þann hátt geta jökulskerin gefið óvenjugóða innsýn í hvað takmarkar landnám og frumframvindu gróðurs á Íslandi. Einnig verður fjallað um mælingar á ýmsum takmarkandi umhverfisþáttum sem geta haft áhrif á landnám gróðurs á þessum jökulskerjum, svo sem vindafar, hitafar og jarðvegsþætti. Að lokum verður fjallað um hvort og hvernig hæðarmörk gróðurs hafa breyst á síðustu áratugum á svæðinu og niðurstöður sýndar um hvaða áhrif öskufallið úr Grímsvatnagosinu 2011 hafði á gróðurfar þess.

Fyrirlesturinn á YouTube