16. október 2013. Sigurður H. Magnússon: Þungmálmar og brennisteinn í mosa á Íslandi 1990–2010: áhrif iðjuvera

16. október 2013. Sigurður H. Magnússon: Þungmálmar og brennisteinn í mosa á Íslandi 1990–2010: áhrif iðjuvera

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi sitt „Þungmálmar og brennisteinn í mosa á Íslandi 1990–2010: áhrif iðjuvera“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 16. október.

Í erindinu verður fjallað um niðurstöður mælinga á styrk þungmálma í tildurmosa, Hylocomium splendens, á Íslandi en frá 1990 hefur á fimm ára fresti verið fylgst með styrk þeirra víðs vegar um land. Rannsóknirnar eru hluti af evrópsku vöktunarverkefni sem m.a. er ætlað að fylgjast með loftborinni mengun. Frá upphafi hefur styrkur Cd, Cr, Cu, Fe, Ni, Pb, V og Zn verið mældur á yfir 100 stöðum og frá 1995 einnig As, Hg og S. Árið 2000 var vöktunin færð út og aukin við álverið í Straumsvík og í Reyðarfirði og árið 2005 einnig á Grundartanga. Meginmarkmið vöktunarinnar er að fylgjast með styrk efnanna hér á landi, lýsa dreifingu þeirra, kanna breytingar sem verða milli ára og meta mengun í nágrenni iðjuveranna.

Fundin voru bakgrunnsgildi og reiknaðir mengunarstuðlar fyrir einstök efni á landinu. Niðurstöður fyrir tímabilið 1990-2010 sýna að styrkur As hefur hækkað en styrkur S, Cd og Pb utan iðnaðarsvæða hefur lækkað. Styrkur annarra efna hefur verið breytilegur á milli ára (Hg, Cr, Fe, Ni, V, Zn) eða staðið í stað (Cu). Mikill munur er á styrk flestra efna eftir svæðum; yfirleitt lægstur á Vestfjörðum og Norðvesturlandi.

Eftir útbreiðslu og uppruna má skipta efnunum í þrjá meginflokka: a) As, Ni og S sem öll berast frá iðjuverunum og sum að hluta frá eldvirkni og jarðhitasvæðum, b) Cr, Cu, Fe og V sem eiga uppruna að mestu úr áfoki og c) Cd, Pb, Zn og Hg sem berast hingað um langan veg og/eða frá þéttbýlissvæðum hér á landi. Starfsemi iðjuveranna hækkar styrk Pb og Cd staðbundið og líklega einnig styrk Cr, Cu, Fe og V. Við Straumsvík hækkar iðnaðarstarfsemi austan álversins styrk flestra efna. Þar er styrkur Cr, Cu, Cd og Zn það hár að mengun telst veruleg. Blýmengun er þar enn hærri, eða mjög mikil. Þessi hái styrkur er aðallega rakinn til iðnaðarstarfsemi austan við álverið.

Samkvæmt reiknuðum mengunarstuðlum er mengun As og Ni vegna iðjuvera nokkur við verksmiðjurnar í Reyðarfirði og á Grundartanga en veruleg við Straumsvík. Brennisteinsmengun við iðnaðarsvæðin þrjú telst engin eða aðeins vísbending um mengun.

Við sýnatöku árið 2010 varð vart við skemmdir á mosa á sunnanverðu landinu sem að mestu eru raktar til goss í Eyjafjallajökli fyrr á árinu. Mosaskemmdir við Reyðarfjörð eru hins vegar raktar til mengunar frá álverinu.

Í erindinu verður einnig fjallað um styrk efna í mosa í nágrenni jarðhitavirkjana á Suðvesturlandi.
 

Fyrirlesturinn á Youtube