10. febrúar 2010. Kristján Jónasson: Flokkun og verndargildi jarðminja á háhitasvæðum á Íslandi

10. febrúar 2010. Kristján Jónasson: Flokkun og verndargildi jarðminja á háhitasvæðum á Íslandi

Kristján Jónasson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindi sitt og Sigmundar Einarssonar „Flokkun og verndargildi jarðminja á háhitasvæðum á Íslandi“ miðvikudaginn 10. febrúar.

Í tengslum við 2. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma (nú Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði) var Náttúrufræðistofnun Íslands falið að afla nauðsynlegra gagna til að flokka háhitasvæði eftir náttúrufari og verndargildi. Í erindinu verður fjallað um flokkun háhitasvæða á Íslandi eftir jarðfræði og landmótun annars vegar og eftir yfirborðsummerkjum jarðhita hins vegar. Þá verður fjallað um verndargildi svæðanna með tilliti til jarðminja.

Til þess að unnt væri að meta verndargildi háhitasvæða landsins var nauðsynlegt að hafa samanburðarhæf gögn um svæðin svo hægt sé að meta fágæti þeirra og fjölbreytileika. Gögnum var því safnað kerfisbundið á sama hátt og sömu þættir kannaðir til þess að hægt væri að bera saman einstök svæði.

Þar sem háhitasvæðin eru mjög misstór og misöflug, var þeim skipt upp í rannsóknarreiti af sambærilegri stærð, 2 km2 að jafnaði. Við afmörkun reita var reynt að láta þá endurspegla náttúrulegar landslagsheildir eftir því sem kostur var. Fjöldi reita á háhitasvæðum er frá einum á minni svæðum upp í 14 á Hengilssvæði og 21 á Torfajökulssvæði.

Allir rannsóknarreitir voru heimsóttir og metnir á sama hátt. Teknar voru ljósmyndir af öllum svæðum bæði yfirlitsmyndir og nærmyndir af yfirborðsummerkjum jarðhita. Settur var upp gagnagrunnur með lýsingum á staðháttum, landslagi, aðgengi, berggrunni, jarðgrunni, höggun, vatnafari, yfirborðsummerkjum jarðhita, jarðminjum tengdum jarðhita og raski ásamt grófu mati á algengi skilgreindra fyrirbæra. Gagnasafnið endurspeglar ástand svæðanna á þeim tíma sem þau voru skoðuð, þ.e. sumrin 2007 og 2008, en sum fyrirbæranna eru í eðli sínu síbreytileg.

Beitt var TWINSPAN fjölbreytugreiningu á hluta gagnasafnsins, annars vegar á þann hluta sem tengist jarðfræði og landmótun, hins vegar á þann hluta sem tengist yfirborðsummerkjum jarðhita. Reitirnir skiptast í 6 flokka eftir jarðfræði og landmótun og í aðra 6 flokka eftir yfirborðsummerkjum jarðhita. Athyglisvert er að rannsóknarreitir á Torfajökulssvæði og í Kverkfjöllum mynda sérstakan jarðhitaflokk; soðpönnusvæði, og að rannsóknarreitir í Vonarskarði og á austurhluta Hengilssvæðis mynda einnig sérstakan flokk; kolsýruhverasvæði.

Við mat á verndargildi svæðanna með tilliti til jarðminja var því skipt í tvö viðföng; jarðfræði og jarðhitaummerki. Stuðst var við eftirfarandi viðmið fyrir bæði viðföng: Fágæti, fjölbreytileika, heild og upprunaleika, og rasknæmi.

Þó að jarðminjar megi flokka til tegunda, þá er ljóst að breytileiki milli eintaka er mun meiri en t.d. milli einstaklinga af ákveðinni tegund lífvera. Því var tekinn saman listi yfir svokölluð undur; þær jarðminjar sem gætu talist bestu eða einu dæmin um slíkar jarðminjar á Íslandi. Auk þess voru skilgreindar jarðminjar sem eru sérstakar eða merkilegar á heimsvísu og líta megi á að Ísland eigi að bera alþjóðlega ábyrgð á, en slíkar jarðminjar ættu að njóta hámarksverndar.

Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands. Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita (skýrsla, pdf)

Kortahefti (fylgirit skýrslu)