30. nóvember 2005. Hörður Kristinsson: Sögutengd útbreiðsla háplantna á Íslandi

30. nóvember 2005. Hörður Kristinsson: Sögutengd útbreiðsla háplantna á Íslandi

Um 40% plantna í íslenzku flórunni eru dreifðar um allt landið, sumar þó með eyðu á miðju hálendinu. Afgangurinn eru ýmist dreifðar um ákveðna hluta landsins, en vantar annars staðar, eða eru svo sjaldgæfar að þær finnast aðeins á örfáum stöðum. Mörgum tegundum má skipta í hópa með sama eða svipað útbreiðslumynstur. Líkur eru á að sama útbreiðslumynstur margra tegunda eigi sér einnig sameiginlega skýringu. Þeir umhverfisþættir sem einkum ráða útbreiðslumynstrum plantna á Íslandi eru loftslag, sjór og jarðhiti. Loftslagstengdum útbreiðslumynstrum voru gerð skil á ráðstefnu Líffræðifélagsins síðastliðinn vetur, en hér verður fjallað um sögutengd útbreiðslumynstur.

Austræna útbreiðslu sýna allmargar tegundir blómplantna eins og kunnugt er, einnig nokkrar fléttur en fáir mosar. Vestræna útbreiðslu hafa mjög fáar blómplöntur, en nokkrar fléttur og margir mosar. Nokkrar blómplöntur hafa hins vegar vestræna útbreiðslu og austræna samtímis, en vantar á svæðum þar á milli. Allmargar tegundir hafa aðalútbreiðslu á Suðvesturlandi, en það er nokkuð sundurleitur hópur sem væntanlega á sér mismunandi skýringar. Að lokum eru allmargar tegundir sem hafa gloppótta útbreiðslu, eru algengar á nokkrum mismunandi svæðum dreifðum um landið með eyðum á milli, eða eru algengar um meiri hluta landsins en eiga eftir að loka hringnum.

Nærtækasta skýringin á þessum sögutengdu útbreiðslumynstrum er skert dreifingarhæfni tegundanna, annað hvort skert fjardreifing eða skert nærdreifing eða hvort tveggja. Tíminn frá ísaldarlokum hefur verið allt of stuttur til að þessar tegundir hafi bæði náð að berast til landsins, og dreifast um allt landið. Frjólínurit benda hins vegar til þess að tegundir sem voru vel búnar til fjardreifingar og nærdreifingar hafi ekki þurft nema um 1000 ár til að leggja allt landið undir sig, eða a.m.k. öll þau svæði sem bjóða þeim hentug loftslagsskilyrði. Sömu tegundir eru einnig fljótar að berast á milli jökulskerja sem koma upp úr Vatnajökli, og jafnvel út til Surtseyjar.

Sagan á bakvið þessi útbreiðslumynstur er í fæstum tilfellum þekkt. Í lokin verður þó skýrt frá örfáum undantekningum, þar sem sagan er að nokkru leyti þekkt, eða leiða má líkur að henni. Þótt möguleikar sumra plantna til fjardreifingar eða nærdreifingar sé þekkt, vantar mjög mikið á þekkingu okkar á dreifingarleiðum flestra plantna. Rannsóknir í Surtsey hafa þó varpað ljósi á möguleika ýmissa tegunda til að flytjast nokkra vegalengd yfir hafið.