2. nóvember 2005. Hreggviður Norðdahl: Síðjökultími og ísaldarlok á Íslandi

2. nóvember 2005. Hreggviður Norðdahl: Síðjökultími og ísaldarlok á Íslandi

Fyrirlesari: Hreggviður Norðdahl, jarðfræðingur.

Aldursákvarðanir á skeljum sælindýra á utanverðum Reykjanesskaga og í setkjörnum úr sjávarbotninum við Ísland benda eindregið til þess að íslenski meginjökullinn hafi á síðasta jökulskeiði náð mestri stærð sinni fyrir minna en 22.000 árum. Á þeim tíma var hnattrænt sjávarborð um 100 m lægra en það er í dag og bæling jarðskorpunnar við núverandi strendur landsins var líklega nokkru meiri en 250 m.

Ísa leysir, sjór gengur á land

Fyrir um 15.000 árum urðu mikil umskipti í veðurfari þegar hlýir sjávarstraumar náðu á ný til hafsvæðanna við landið. Í kjölfar þess tók meginjökullinn að hörfa af landgrunninu og fyrir tæpum 13.000 árum var brún hans komin inn fyrir núverandi strendur landsins. Mjög há fjörumörk mynduðust þá á Vestur- og Norðausturlandi en aldursákvarðanir á fornum sæskeljum sýna að þessi fjörumörk eru frá Bölling tíma eða um 12.700 ára gömul. Fjörumörk í þessari miklu hæð mynduðust vegna þess að hopun jökulsins af landgrunninu og inn yfir núverandi strönd landsins var hraðari en svo að ris jarðskorpunnar héldi í við hækkun hnattræns sjávarborðs. Síðar, á Bölling-Alleröd tíma, varð landris langt umfram hnattræna hækkun sjávarborðs, sjór tók að falla af landinu og fjörumörk færðust jafnt og þétt neðar, líklega allt þar til sjávarborð var komið niður undir hæð núverandi sjávarborðs við Ísland. Margt bendir til þess að þá hafi jöklar á landinu verið mjög litlir og jafnvel verið horfnir af stórum hluta þess.

 

Sveiflur í jöklum og sjávarborði

Þegar loftslag kólnaði aftur í lok Alleröd og í upphafi yngri Dryas tíma stækkaði íslenski meginjökullinn og náði víðast hvar lang leiðina út undir núverandi strendur landsins. Á suðaustanverðu landinu náði jökullinn að öllum líkindum allt að 20 km út fyrir núverandi strönd þess. Samfara þessari stækkun jökulsins seig jarðskorpan undan vaxandi jökulfargi og afstætt sjávarborð hækkaði og náði hámarki á yngri Dryas tíma fyrir um 10.300 árum. Á næstu 500 árum, eða á Preboeral tíma minnkaði íslenski meginjökullinn og jarðskorpan reis umfram hnattræna hækkun sjávarborðs þannig að afstætt sjávarborð lækkaði um 25-45 m.

Þegar kólnaði aftur og jökulfargið jókst hækkaði sjávarborð á ný um allt að 25 m. Þá mynduðust víða á landinu áberandi fjörumörk um 10-35 m neðan við yngri Dryas fjörumörkin. Aldursákvarðanir á sæskeljum sýna að þessi atburður varð fyrir um 9.800 árum. Eftir þetta hlýnaði á ný, meginjökullinn hörfaði hratt inn til landsins, landið reis hratt undan minnkandi jökulfargi og fyrir um 9.400 árum féll afstætt sjávarborð niður fyrir núverandi sjávarborð.

Fyrir um 9.000 árum náði afstætt sjávarborð að öllum líkindum lægstu stöðu sinni við Ísland og var þá um 40 m neðar en það er í dag. Fyrir um 8.000 árum er talið að stór hluti hálendis landsins hafi verið orðinn jökulvana en um það leiti runnu einhver stærstu nútímahraun landsins að sjávarmáli sem þá var um 10-15 m neðan við núverandi sjávarmál.

Meira um verkefnið og aðferðafræðina

Rannsóknaverkefnið „Ísaldarlok á Íslandi – stærð jökla og afstæðar sjávarstöðubreytingar“ hefur verið á dagskrá Raunvísindastofnunar Háskóla íslands síðan 1985 í samvinnu við Halldór G. Pétursson á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Meginmarkmið verkefnisins hafa verið að halda áfram rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar og Þorleifs Einarssonar á hörfun íslenska meginjökulsins í lok síðasta jökulskeiðs. Við rannsóknir okkar höfum við lagt mesta áherslu á kortlagningu fornra fjörumarka og grunnsjávar- eða fjörusets, en með þeirri kortlagningu hafa fengist mikilsverðar upplýsingar um útbreiðslu og aldur sjávarumhverfis við landið. Með rannsóknum af þessu tagi hefur einnig fengist vitneskja um stærð jökla á landinu þar sem þeir náðu til sjávar og höfðu afgerandi áhrif á gerð setlaga og fánur lindýra. Með þessum gögnum má greina afstæðar sjávarstöðubreytingar í tvo grunnþætti; raunverulega sjávarborðshæð (eustasy) og flotjafnvægi (isostasy) í tíma og rúmi. Þannig hefur tekist að kortleggja stærð íslenska meginjökulsins og afstæðar sjávarstöðubreytingar frá þeim tíma er jökullinn hörfaði inn yfir núverandi strendur landsins í byrjun síðjökultíma og þar til landið varð nær íslaust snemma á nútíma. Aldur þessarar atburðarásar má fá með aldursákvörðunum á leifum (skeljum) lindýra.